138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það hryggir mig að heyra það skilningsleysi sem er á aðstæðum fólks úti á landi. Ég held að menn verði að átta sig á því að fólk sem býr úti á landi býr við annars konar kjör að mörgu leyti en hér á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda, ef fólk missir vinnuna á sínu heimasvæði, verður ekki endilega meira atvinnuleysi á svæðinu því að fólkið flytur í burtu. Þess vegna er ósanngjarnt að stilla því þannig upp að nú mælist meira atvinnuleysi á höfuðborginni en víðs vegar á landsbyggðinni. Það eru allir sammála um að landsbyggðin hefur verið í vörn. Þetta er svona svipað eins og að segja í kreppunni að ríkir hafi tapað meira en fátækir og þess vegna skulum við koma öllum þeim ríku til hjálpar vegna þess að þeir hafi tapað meira.

Varðandi strandsiglingar er það landsbyggðin sem þarf fyrst og fremst á jöfnun á flutningskostnaði að halda. Í mínu heimahéraði eru ein þrjú stærstu framleiðslufyrirtæki á landinu sem framleiða mat og keyra hingað suður á land. Þar veltir fólk fyrir sér hvort ekki sé einfaldlega betra að flytja fyrirtækið suður til Reykjavíkur. Þess vegna verður að ráðast í að jafna flutningskostnað en ekki að koma með einhverjar svona gamlar lummur eins og að hefja strandsiglingar. Ætla menn að sigla með kjötvörur og mjólkurvörur einhverja daga eða vikur hringinn í kringum landið? Ég held að menn verði aðeins að koma niður á jörðina. Landsbyggðin þarfnast þess fyrst og fremst að fólk átti sig á því að þar eru aðstæður erfiðari, samgöngur eru erfiðari og fyrst og fremst að stjórnvöld eiga að koma til móts við heimamenn eins og á Bakka við Húsavík og á Reykjanesi í stað þess að flækjast fyrir.