138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og ég þekki mína landsbyggð er nú blendin reynslan hennar af kvótakerfinu í sinni óbreyttu mynd sem þingmenn tala hér um sem sérstakt akkeri stöðugleika og atvinnu þar. Andinn var að minnsta kosti ekki þannig á Raufarhöfn á ákveðnu árabili, í Hrísey, á Flateyri eða á mörgum öðrum stöðum sem eiga um sárt að binda einmitt út af því kerfi. (Gripið fram í.) Ég bið nú hv. þingmann að tala varlega í þeim efnum. Frekar hefðu þeir átt að gleðjast yfir strandveiðunum en hafa hér allt á hornum sér.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er einmitt reynt að hlífa ýmsum mikilvægum smærri verkefnum fyrir landsbyggðina. Eitt af því fáa nýja sem ekki er hróflað við eru almennt tillögur byggðanefndanna sem skiluðu af sér á síðasta og þarsíðasta ári, norðvesturnefnd, norðausturnefnd o.s.frv. (Gripið fram í: Hvað varð um suður…?)

Í öðru lagi þegar menn tala um niðurskurð og aðhald í opinberri þjónustu ættu þeir að fara yfir hlutfallslegt vægi þeirra atvinnugreina eins og því er dreift um landið. Ætli þessi niðurskurður komi nú ekki þyngst niður þar sem hlutfallslegt vægi opinberrar þjónustu er mest? Auðvitað horfa menn á þar sem fá tiltekin, opinber störf eru í byggðarlögum. En ef við tökum þessar hlutfallstölur og skoðum þær sjáum við að þetta mun bitna þyngst á höfuðborgarsvæðinu eða höfuðborginni sjálfri, Akureyri og nokkrum öðrum stórum opinberum þjónustukjörnum. Landsbyggðin nýtur þess að öðru leyti núna að þar eru framleiðslu- og undirstöðuatvinnuvegirnir hlutfallslega þyngstir, það er sjávarútvegur, landbúnaður, matvælaiðnaður, ferðaþjónusta og önnur slík starfsemi, þar sem ekkert sambærilegt hrun hefur orðið, eins og í fjármálaþjónustu, byggingariðnaði og öðrum greinum sem stóðu aðallega undir þenslunni hér. Sveitarfélögin á landsbyggðinni komast mörg hver frá þessu með mun minna tekjufalli en önnur, vegna þess að þar koma á móti störf tekjuhárra sjómanna, minna atvinnuleysi, góð afkoma í ferðaþjónustu og fleiri slíkir hlutir. Við eigum því ekki að tala okkur niður, við sem erum kjörin á þing fyrir landsbyggðarsvæðin.

Ég get tekið undir það að það er tilfinnanlegt hvað flutningskostnaður hefur (Forseti hringir.) hækkað og hversu torvelt hefur reynst að ráða þar bót á, en þar skyldu þingmenn sem hafa haft (Forseti hringir.) 18 eða 12 ár til þess að gera eitthvað í málinu, tala varlega í þessum sal.