138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[14:59]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að koma að þessari umræðu úr svolítið annarri átt en þeir sem hér hafa talað. Í sjálfu sér þyrfti fjölgun kvenna í sveitarstjórnum eða á Alþingi ekki að kosta neina peninga, hún kostar fyrst og fremst pólitískan vilja, stjórnmálaflokka og hreyfinga sem bjóða fram til sveitarstjórna og til Alþingis. Valdið er hjá stjórnmálaflokkunum, hjá fólkinu í flokkunum. Ég ætla samt ekki að gera lítið úr því að auðvitað þarf að hvetja konur sérstaklega án þess að ég fari út í það hvers vegna. Það sýnir reynslan okkur. Það er einfaldlega þannig að karlar taka enn um sinn meira opinbert rými en konur, svo ég leyfi mér að lýsa því þannig. En það er fyrst og síðast á ábyrgð íslenskra stjórnmálaflokka að sjá til þess að nógu margar konur séu á framboðslistum og að konur leiði framboðslista.