138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[15:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil segja í upphafi að mér þóttu svör hæstv. félagsmálaráðherra frekar rýr í roðinu. Jú, það er komin skýrsla frá hæstv. samgönguráðherra, en það voru ekki nefnd nein bein verkefni eða aðgerðir, nema útvarpsþættir, það var nefnt. Ég vil bara segja að menn verða að átta sig á því á hvaða tímabili við erum að ræða þessi mál. Það er prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum 7. nóvember á Seltjarnarnesi, þetta er hafið, baráttan er byrjuð. Og þar veit ég að konur ætla að taka þátt og eru búnar að tilkynna það o.s.frv., meira að segja ætla að reyna að berjast fyrir fyrsta sætinu.

Ég veit að Drífa Hjartardóttir, fyrrum alþingismaður, sem er núna forustukona fyrir konur innan Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið frumkvæði að því að leiða saman konur sem leiða kvennahreyfingarnar í stjórnmálaflokkunum, frumkvæði að því að hitta Jafnréttisstofu til að ræða þetta, af því þetta er allt farið í gang hjá Sjálfstæðisflokknum og þetta er að fara í gang hjá Framsókn. Hvenær eiga þessir útvarpsþættir að hefjast? Fyrsta prófkjörið er eftir tvær vikur rúmar. Þetta verður allt að fara í gang núna. Það verður að hafa áhrif á hina opinberu umræðu.

Þessi umræða gengur ekkert út á að það eigi að setja á kynjakvóta um allt land núna, alls ekki. Við erum að biðja um að það verði höfð áhrif með aðgerðum á hina opinberu umræðu, þannig að fólkið sem er í flokkunum sem fer í prófkjörin hafi þetta ofar í huga heldur en verið hefur.

Ég óttast svolítið af því hlutfallið var 35% síðast í sveitarstjórnarkosningunum, að menn haldi að þetta sé bara allt í góðu lagi. Þannig var það á sínum tíma í þinginu, menn héldu að þetta væri allt í góðu lagi, en þá varð bakslag og við náum ekki árangri aftur fyrr en núna í síðustu kosningum í vor, þá fór það upp í 40%. Þannig að það verður (Forseti hringir.) að hefjast handa strax.