138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það færi betur á því ef hæstv. fjármálaráðherra kæmi einfaldlega hingað upp og segði við okkur: Við eigum engan annan valkost, við getum ekkert annað gert, við þurfum að sætta okkur við fjárkúgun og misbeitingu.

Fjárkúgun er orðið sem hann notaði sjálfur um það hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið fram gagnvart okkur. Misbeiting er það sem hann kallaði vinnubrögð Evrópusambandsríkjanna í október í fyrra. Ógildanlegan nauðasamning kallaði hann samninginn um hin sameiginlegu viðmið.

Nú kemur þessi sami maður hér upp og heldur því fram við þingheim að fyrri stjórnvöld hafi skuldbundið okkur Íslendinga til þess að gera það sem honum var falið að ganga frá. Manni er fullkomlega misboðið við þennan málflutning, fullkomlega. Þetta var ein samfelld súpa af rangfærslum og rangtúlkunum á sögu málsins, öllu snúið á hvolf, meira að segja undirritun (Forseti hringir.) samkomulagsins við AGS þar sem við sögðum nákvæmlega ekki neitt annað en að (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) við ætluðum að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, það var allt og sumt. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Aldrei nokkurn tíma var því lofað (Forseti hringir.) að veita ríkisábyrgð vegna allra þeirra skuldbindinga sem við erum að fjalla hér um.