138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega svo að þegar við þingmenn, a.m.k. stjórnarandstöðuþingmenn á Alþingi, vorum að tjá okkur um þessi mál í október, nóvember og desember í fyrra voru okkur hulin mörg lykilgögn þessa máls. Núverandi stjórnvöld hafa verið sökuð um leynd eða tilburði til að halda einhverju undan í þessum efnum. (Gripið fram í.) Hafa þó sennilega aldrei eins mikil gögn verið reidd fram í neinu máli og þessu. (Gripið fram í.) Mjög mörg lykilgögn þessa máls, eins og MOU-ið um tíu ára lán á 6,7% vöxtum, því var haldið algjörlega leyndu fyrir þingmönnum sem ræddu þessi mál og skoðuðu á haustmánuðum. Það ber að lesa í ummæli manna út frá samhengi þeirra hluta m.a. sem þeir vissu um málið á þeim tíma. (Gripið fram í.)

Nú liggja öll gögn málsins fyrir. Annars vegar er þetta ósköp einfalt, frú forseti, ég þarf ekki miklar efnislegar þrætur við hv. þm. Bjarna Benediktsson. Eitt er ljóst, ef það er einhver einn flokkur sem á þetta Icesave-klúður skuldlaust með húð og hári (Forseti hringir.) umfram annan flokk er það Sjálfstæðisflokkurinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)