138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Meðal annars vegna þess að þetta er fellt inn í gildandi samning eða samninginn frá 5. júní með viðaukum sem taka inn að uppistöðu til fyrirvara Alþingis og síðan er þessu að hluta til búin umgjörð í lögum. Það kallar á lagabreytingar sem ég fór rækilega yfir í ræðu minni þar sem ég útlistaði í hverju þessar meginbreytingar væru fólgnar og þar sem ég minntist m.a. á Brussel-viðmiðin. En hv. þingmaður hefur verið vant við látinn eða verið með athyglina á einhverju öðru þegar sá kafli ræðu minnar var fluttur og get ég ekki gert að því. (Gripið fram í.)

Það er sannarlega þannig sem um þetta mál er búið, það varð niðurstaðan að leysa þetta með þríhliða gjörningum, viðaukasamningum sem leggjast við samningana frá 5. júní með frumvarpinu, sem heldur tilteknum þáttum málsins til haga, og með þríhliða yfirlýsingu stjórnvalda ríkjanna sem var birt samtímis því að samningarnir voru undirritaðir og frumvarpið var lagt fram. (Gripið fram í.)