138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra heldur því í fullri alvöru fram — við vorum nokkurn veginn í allt sumar að fjalla um þetta mál og svo sannarlega voru hæstv. ráðherra og ríkisstjórn gerendur í því. Nú kemur hæstv. ráðherra hér og segir að þetta sé svona meira tæknileg útfærsla, aftur.

Spurningin er: Af hverju gerðu menn þetta þá ekki í sumar? Ef þetta er rétt hjá hæstv. ráðherra, sem sagði fyrir nokkrum vikum að allt rúmaðist innan ramma og við þyrftum ekkert að eiga við þetta mál meira, það væri bara sjálfsagt að setja Breta og Hollendinga inn í þetta af því að þetta var allt saman innan ramma, af hverju fara menn þá í einhverja tæknilega útfærslu núna?

Virðulegi forseti. Þetta er bara enn ein staðfestingin á því að í besta falli veit hæstv. ráðherra ekki hvað hann er að gera. Í versta falli er þetta nákvæmlega eins og í öllu þessu máli af hendi hæstv. ráðherra, að hann er ekki að segja satt. Hér er að sjálfsögðu ekki um neina tæknilega útfærslu að ræða. Menn falla frá fyrirvörunum sem samþykktir voru fyrir nokkrum vikum (Forseti hringir.) og hæstv. ráðherra væri maður að meiri að koma bara og segja það, segja frá því að hann (Forseti hringir.) gafst upp fyrir Hollendingum og Bretum og kemur hér með frumvarp sem gerir það að verkum að allri vinnunni í sumar er sópað af borðinu. (Gripið fram í: Rétt.)