138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Jú, frú forseti, svo sannarlega ber Alþingi að gera það enda er það gert í einu og öllu og hér er lagður fyrir samningur með fyrirvara um samþykki Alþingis sem þarf til fullnustunnar algerlega í samræmi (Gripið fram í.) við stjórnskipun landsins. (Gripið fram í.)

Nú þekkir Alþingi reynsluna af því að reyna að leysa flóknar og erfiðar milliríkjadeilur með þeim hætti sem hér var gert í sumar. (Gripið fram í.) Það rifjast þá upp fyrir mönnum að þegar upp er staðið er þetta ekki einhliða mál okkar, við erum ekki að semja við okkur sjálf. Það er ekki sjálfgefið að við fáum endanlegar lyktir í málið með einhliða lagasetningu af okkar hálfu frekar en að það væri sjálfgefið að lyktir málsins fengjust með einhliða lagasetningu Hollendinga eða Breta. (Gripið fram í.) Hér er málið hins vegar komið í skýran og endanlegan og einfaldan búning. Það er afar fljótlegt að átta sig á því hvernig þetta er útfært að fyrirvararnir að uppistöðu til ganga inn í samningana sem hér liggja fyrir og fylgja með þýddir og það sem upp á vantar stendur áfram í lögunum. (Gripið fram í.)