138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er væntanlega þannig ef hér yrðu gerðar breytingar á. Samningarnir sem slíkir eru ekki til afgreiðslu á Alþingi eða til umfjöllunar. Þeir liggja fyrir undirritaðir af stjórnvöldum ríkjanna eins og hefð og venja er og verður að vera í samningum milli ríkja. Lagafrumvarpið sjálft er ákaflega einfalt. Það tekur á þessum tveimur meginkjörnum málsins: Ríkisábyrgðargreininni í fyrsta lagi. Hún er skýr án fyrirvara og þar af leiðandi er væntanlega ekki mikið svigrúm til breytinga á henni. (Gripið fram í.) Önnur greinin er áskilnaður okkar sjálfra og okkar lagalegi fyrirvari og væntanlega hafa þingmenn ekki áhuga á því að missa hann fyrir borð.

Í fljótu bragði sé ég því ekki hvað það væri (Gripið fram í.) í þessum efnum sem menn ætla að fara að gera breytingar á nema þeir vilji hafna niðurstöðunni í heild sinni. (Gripið fram í: Já eða nei?) Þeir sem vilja hafna niðurstöðunni í heild sinni geta auðvitað gert það en þá er einfaldast að þeir greiði bara atkvæði gegn frumvarpinu. (Gripið fram í.)