138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn og aftur um heimild til ríkisstjórnarinnar til að veita ríkisábyrgð á lántökum innstæðutryggingarsjóðs vegna Icesave-reikninganna. Eins og ég vék að í andsvari mínu við hæstv. fjármálaráðherra áðan kynni ég betur við að menn kæmu einfaldlega hreint fram og segðu: Mat okkar á aðstæðum okkar Íslendinga er það að við þurfum að sætta okkur við að vera beittir fjárkúgun annars vegar af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, svo vitnað sé í þeirra eigin orðalag eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur t.d. orðað það, og við þurfum að sætta okkur við að Norðurlöndin, Evrópusambandsríkin, Bretar og Hollendingar sérstaklega, neita okkur um réttinn til að fá skorið úr um lagalega óvissu. Og þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir fjárkúgunina og þrátt fyrir misbeitinguna og þrátt fyrir að þingmenn Vinstri grænna hafi talað um að Brussel-viðmiðin hafi verið ógildanlegur neyðarsamningur, telji menn best fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar að veita þá ríkisábyrgð sem við fjöllum hér um.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að við öll í þessum þingsal og íslenska þjóðin eigum kröfu til þess að fjármálaráðherra Íslands sé ekki bara fjármálaráðherra Vinstri grænna og komi upp og setji málið í pólitískt samhengi heldur sé hann fjármálaráðherra Íslands og gæti íslenskra hagsmuna og tali um málið út frá íslenskum hagsmunum, hagsmunum allra íslenskra borgara. Þannig málflutning viljum við heyra hér. En það er auðvitað kosið að fara með þetta mál ofan í pólitískar skotgrafir eins og ítrekað er gert af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hafa kosið að hafa sína eigin sögulegu túlkun á því sem gerst hefur í aðdraganda hrunsins og á mánuðunum þar á eftir. Þannig er það t.d. alveg með ólíkindum að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra lýsa því yfir að það hafi verið vegna þess að hann hafi ekki haft aðgang að öllum gögnunum sem hann hafi talið að við hefðum betri réttarstöðu en raun ber vitni. Heyr á endemi. Hvaða gögn eru það sem hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki aðgang að þegar hann sagði að við ættum að hafna því að sæta afarkostum? Auðvitað eru það engin gögn sem máli skipta sem hann hefur nú fengið aðgang að sem réttlæta þá breytingu á afstöðu hans sem birtist í þessu frumvarpi, ekki nein. Við höfum í gögnum þessa máls, eins og t.d. var á sumarþinginu, álit frá hæstaréttardómurum sem segja afar skýrt: Það gerðist ekkert síðasta haust, haustið 2008, í samskiptum ráðherra við starfsbræður sína í Evrópusambandsríkjunum. Það gerðist ekkert með undirritun samninga eins og t.d. hinum sameiginlegu viðmiðum, Brussel-viðmiðunum. Það er ekki hægt að vísa í yfirlýsinguna sem veitt var Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ekkert af þessu felur í sér loforð íslenskra stjórnvalda til að veita ríkisábyrgð á öllum þeim kröfum sem standa á innstæðutryggingarsjóðinn. Þetta hafa hæstaréttarlögmenn, okkar færustu sérfræðingar, staðfest með skriflegum álitum til þingsins. Það lá allt fyrir á sumarþinginu. Þess vegna er það svo hörmulegt að fjármálaráðherra Íslands komi hér upp og haldi öðru fram eins og hann sé ekki talsmaður okkar, eins og hann sé talsmaður viðsemjenda okkar, eins og hann sé talsmaður þeirra sem vilja halda öðru fram. Við ætlumst auðvitað til þess að öllu sem getur stutt málstað okkar sé haldið á lofti þegar við ræðum þetta mikilvæga mál sem felur í sér ríkisábyrgð á skuldbindingu sem nemur um það bil hálfri landsframleiðslu.

Menn kjósa að fara í söguskýringar allt aftur í einkavæðingarferlið og vilja kenna formönnum þáverandi stjórnarflokka um. Ef það dugar ekki vísa menn í einhver bréfaskrif frá síðasta hausti. Ef það dugar ekki er vísað í yfirlýsingar frá Seðlabankanum og að lokum eru menn að sjálfsögðu komnir í fullkomið rökþrot. Við og allir þeir sem koma að þessu máli þurfum að sammælast um það í þessum sal að halda þannig á því að við sjáum hvað sameinar okkur þar. Stóra spurningin er einfaldlega þessi: Er það virkilega þannig eins og ríkisstjórnin heldur fram að það sé best fyrir okkur að sætta okkur við þá pólitísku afarkosti sem okkur hafa verið settir? Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar. Hún getur ekki vísað til þess að það hafi einhver annar tekið þá ákvörðun vegna þess að það er þessi ríkisstjórn sem skrifaði undir Icesave-samningana, það var þessi ríkisstjórn sem lagði ríkisábyrgðarfrumvarpið fyrir þingið í sumar og það var þessi ríkisstjórn sem bað okkur um að samþykkja þetta. Þess vegna getur þessi sama ríkisstjórn ekki vísað til einhverra fyrri ríkisstjórna um að sú ákvörðun hafi þegar verið tekin. Þetta er stóra spurningin og við skulum ræða hana í tengslum við þetta mál. Ræðum þá spurningu hvort við höfum mögulega enga aðra valkosti, ég held nefnilega að málið snúist á endanum um það. Hvað gerist ef við veljum að hafna þessum pólitísku afarkostum? Það er kjarni þessa máls.

Að öðru leyti vil ég segja um þetta frumvarp að það er með miklum ólíkindum hvernig forusta ríkisstjórnarinnar reynir að sannfæra sjálfa sig, fjölmiðlamenn og núna síðast þingheim, um að efnislega sé þetta mál sambærilegt því sem við vorum með í sumar. Auðvitað er það ekki þannig þegar málið, eins og það var afgreitt í sumar, setti hámark á árlegar greiðslur. En núna verðum við alltaf að standa undir vaxtagreiðslunum. Þetta er grundvallarmunur. Þyngsta byrðin í þessu máli er að standa undir vaxtagreiðslunum. Hvernig geta menn haldið því fram að niðurstaða sem felur í sér að maður þurfi ekki að standa undir öllum vaxtagreiðslunum sé sambærileg við þá að maður þurfi ávallt að greiða alla vextina? (Fjmrh.: Það er ekki heppilegt að láta höfuðstólinn vaxa ...) Óháð stöðu efnahagsmála. Það er hárrétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir að það er ekki heppilegt að láta höfuðstólinn vaxa. En hvað var það sem þingið sagði í sumar? Ég rifja það upp í því samhengi að það voru stjórnarliðar sem afgreiddu málið þannig. Þá var í raun verið að segja þetta: Framlag okkar Íslendinga til lausnar á Icesave-deilunni er þetta: Við erum tilbúin að verja 6% af hagvextinum á árunum 2016–2024 til að leysa þetta mál, til að afgreiða þessa erfiðu deilu. Við veitum ríkisábyrgð á þeirri fjárhæð. Komi til að það dugi ekki til að afgreiða þessar háu tölur sem Bretar og Hollendingar hafa nú þegar reitt af hendi til innstæðueigendanna verður að ræða það sérstaklega síðar. Standi til að veita ríkisábyrgð fyrir því sem þá stendur út af þarf þingið að koma aftur að því máli.

Mér finnst þetta býsna vel boðið af okkur Íslendingum að taka 6% af hagvextinum allan þennan tíma og verja honum til lausnar á þessu máli. En það er eins og við sáum strax í upphafi þessa árs að Hollendingar og Bretar eru ekki að reyna að leysa þetta mál á pólitískum forsendum. Þeir hafa alltaf nálgast þetta mál þannig að við skuldum þessa fjárhæð. Hér segir í 2. gr. frumvarpsins að við viðurkennum það ekki að ríkinu beri nokkur skylda til að ábyrgjast þetta en við ætlum samt að gera það allt saman. Því er fagnað sérstaklega, það sé mikill pólitískur áfangi að fá sameiginlega yfirlýsingu með Bretum og Hollendingum um það sem segir sérstaklega í yfirlýsingunni, að Íslendingar vefengi að þeir beri lagalega skyldu til þessa. Bretum og Hollendingum má vera slétt sama, þeir hafa fengið allt sitt. Það mætti standa þarna þeirra vegna að við teldum að þeir væru allir með hala. Þeim er alveg sama vegna þess að þeir hafa fengið allt það sem þeir hafa beðið um í þessari deilu. Það skiptir engu máli hvað segir í þessari yfirlýsingu þegar þeir hafa fengið allt sitt í hús. En þessu er teflt fram í umræðunni eins og einhverjum áfangasigri sem er mikil rangtúlkun. Það væri nær að það stæði í frumvarpinu að við Íslendingar veittum þessa ríkisábyrgð í góðri trú um að okkur bæri skylda til þess. Við teldum að okkur bæri skylda til að gera þetta og af þeirri ástæðu veittum við þessa ríkisábyrgð. Síðan þyrfti að koma þar fyrir aftan áskilnaður: Ef annað kemur í ljós ætlum við að sjálfsögðu ekki að veita ríkisábyrgðina eða að standa undir því að taka á okkur kröfur sem nema hálfri landsframleiðslu. Nei, menn velja ekki þá leið. Menn telja sig vera að vinna einhvern sigur með því að segja: Þrátt fyrir að við vitum og séum þeirrar skoðunar að okkur beri engin skylda til að gera þetta ætlum við samt að veita alla ríkisábyrgðina að fullu. Ég held að það geri stöðuna verri. Hver getur gert kröfu um að fá leiðréttingu á stöðu sinni ef hann vissi frá upphafi að hann hefði ekki neinar skyldur til að taka þetta á sig?

Ég tek eftir því að hæstv. fjármálaráðherra vill gera mikið úr atburðum síðasta vetrar, því sem gerðist í nóvember og desember, þegar við vorum með málið til umfjöllunar í upphafi, þegar ríkisstjórnin bar það undir þingið hvort það ætti að fá heimild til að leiða málið til lykta. Ég var þeirrar skoðunar þá, það er allt rétt sem haft er eftir mér hér af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Ég taldi að það væri betra fyrir okkur eins og staðan var þá að leita leiða til að leiða ágreininginn í jörð, það kynni að koma betur út fyrir okkur.

Við þyrftum líka að hafa það í huga ef við vildum fara dómstólaleiðina að við kynnum að tapa málinu og við gætum mögulega átt von á samkomulagi vegna þess að regluverk Evrópusambandsins brást augljóslega, fjármálaráðherra Frakklands var farinn að gegna milligönguhlutverki, Evrópusambandið allt hafði mikla hagsmuni af lausn þessa máls. Ég taldi best við þessar aðstæður að setjast að samningaborði og reyna að finna sameiginlega niðurstöðu. En að sjálfsögðu fylgir það þeirri skoðun að ef þær viðræður ættu ekki að leiða til annarrar niðurstöðu en þeirrar að við tækjum allt saman á okkur hvernig gat það þá verið betra en fá niðurstöðu dómstóla? Þessi málflutningur stenst enga skoðun. Þess vegna hef ég sagt frá því að málið var komið í þennan farveg þar sem er fullkominn ósveigjanleiki af hálfu viðsemjenda okkar, að við ættum að halda stíft í þá kröfu sem við höfum sem betur fer haldið á lofti allan tímann, að fá niðurstöðu hlutlausra aðila. Er það einhver frekja af hálfu okkar Íslendinga að krefjast úrlausnar á þessu lagalega ágreiningsefni? Það er sko engin frekja. Það er galli í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem hefur þann veika blett á sér að þar er enginn „stofnanastrúktúr“ sem við getum nýtt okkur til að fá lagalega niðurstöðu. Og umræðan um breytingar á regluverkinu í Evrópusambandinu sem á sér stað þessar vikurnar og mánuðina sýnir að öll Evrópusambandsríkin hafa séð að sú tilskipun sem þessi ríkisábyrgð á að byggja á er meingölluð, hún gengur ekki upp, hún tryggir ekki stöðu innstæðueigenda þegar fjármálakerfi hrynja. Ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist í því að halda málstað okkar á lofti, fullkomlega. Það skynja ég þegar ég hitti fulltrúa þjóðþinganna. Við hittum forseta sænska þingsins í síðustu viku. Það er eins og þessir menn séu að koma að þessu máli í fyrsta sinn. (HöskÞ: Þannig er það.) Ég leyfi mér að efast um að nokkur önnur ríkisstjórn hefði látið undir höfuð leggjast að færa fram formleg mótmæli við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þeirrar misbeitingar sem við höfum verið beitt þar. Menn hafa fært þetta í tal munnlega á óformlegum og formlegum fundum en þessu hefur hvergi verið mótmælt opinberlega.

Við munum það líka hvernig umræðan var í Evrópu í sumar, að stærstu fjölmiðlar í Evrópu, þeir sem mark er tekið á, sáu að við höfum sterkan málstað í þessu máli. Það sjá þetta allir. Þess vegna komum við aftur að þessari grundvallarspurningu: Höfum við eitthvert val hér? Ríkisstjórnin telur að við höfum ekkert val. Ég er þeirrar skoðunar að það sé allt of mikið gert úr afleiðingum þess fyrir okkur að færa skýrar fram kröfuna um að fá skorið úr um þetta, halda í réttinn til að fá skorið úr um lagalegu skuldbindinguna. Og sé það niðurstaða hlutlauss þriðja aðila, dómstóla eða eftir atvikum gerðardóms, að þessi skylda hvíli á okkur skulum við svo sannarlega sameinast um að rísa undir þeirri ábyrgð, taka þær skyldur á okkur og greiða til baka hverja evru, hvert pund sem við skuldum viðkomandi aðila. En að gera það án lagalegrar skuldbindingar, taka á sig alla fjárhæðina og semja síðan þannig eins og verið er að gera hér — og það er ein breytingin sem við sjáum á þessu máli frá því í sumar að við getum ekki einu sinni notið góðs af því þegar úr þessu fæst skorið — er ekki boðleg niðurstaða.

Nú munu menn stökkva fram og segja: Nú er stjórnarandstaðan bara að reyna að finna veikan blett á ríkisstjórninni. Hún vill endilega fella hana. En ef við förum í þær pólitísku skotgrafir sem þetta mál hefur verið í fáum við aldrei botn í grundvallaratriði eins og þetta. Ríkisstjórnin vill halda málinu þar. (Forseti hringir.) Hún vill kalla afstöðu stjórnarandstöðunnar óábyrga, ómálefnalega, að þetta sé ekkert annað en pólitísk skotárás á ríkisstjórnina, (Forseti hringir.) en allir sem skoða þetta mál af yfirvegun sjá að í grunninn snýst það bara um þessa stóru spurningu: (Forseti hringir.) Höfum við eitthvert val eða eigum við að sætta okkur við pólitíska afarkosti? Og það er það sem ríkisstjórnin leggur til.