138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að verða þess vitni að hlusta á nýjan formann Sjálfstæðisflokksins tala um málið af þeirri léttúð sem hann gerir nú. Hann vildi ekki taka undir það sem einn úr hans liði sagði 4. október. (REÁ: Tekur þú undir með Björgvin?) Hann vildi ekki taka undir það.

Í seinna andsvari mínu dettur mér í hug að spyrja hv. þingmann út í viljayfirlýsinguna sem gerð var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem m.a. er fjallað um í 9. tölul. þar sem talað er um og fullyrt að Íslendingar ætli sér að viðurkenna skuldbindingar gagnvart öllum tryggðum innstæðueigendum og ætlunin sé að vinna með öðrum alþjóðlegum mótaðilum tryggingarsjóðsins, þ.e. breska og hollenska tryggingarsjóðnum o.s.frv. Í stuttu andsvari er ekki hægt að fara yfir það allt saman.

Virðulegi forseti. Þetta var undirritað af þáverandi seðlabankastjóra Davíð Oddssyni og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen. (Gripið fram í.) Þetta er viljayfirlýsing sem gerð var af þáverandi ríkisstjórn og því spyr ég (Gripið fram í.) hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því (Forseti hringir.) sem þessir tveir aðilar undirrituðu fyrir hönd Íslands.