138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Tvennu er ég ósammála hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi er það að vísu rétt hjá honum að minnisblaðið var afturkallað með tilkynningu til forsætisráðherra Hollands en það elti okkur samt eins og draugur og hafði áhrif.

Hitt sem ég er honum ósammála um er að hann talar eins og það sé engin áhætta fólgin í því að fara þá leið sem hann vill fara. Það er nefnilega áhætta fólgin í því. Ég held að við Íslendingar höfum sloppið dável með neyðarlögin, ég verð að segja það bara alveg eins og er. Þau voru sett í mikilli tímaþröng og hefði mátt hugsa þau betur, í þeim eru ákveðnar hættur fólgnar. Ég tel að ef við færum þá leið sem hv. þingmaður talar um gæti svo farið fyrir dómi að Íslendingar yrðu dæmdir til þess að greiða meira en t.d. þær 20.887 evrur sem núna eru tengdar hverjum innstæðueiganda. (HöskÞ: Hvernig færðu það út?) Það er ákveðin áhætta, frú forseti, (Gripið fram í.) og þess vegna er ég ósammála hv. þingmanni í grundvallaratriðum þegar hann segir að við séum nú þegar búin að axla allan kostnaðinn. Það er ekki svo.

Færum við dómstólaleiðina, ef hún yrði yfir höfuð nokkru sinni fær, kynni svo að fara, eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni 5. desember, að sá leiðangur (Forseti hringir.) mundi kosta okkur meira en jafnvel þeir samningar sem við erum með núna, (Forseti hringir.) en hvor tveggja leiðin hefur áhættu í för með sér.