138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:27]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á erfitt með að sjá hvernig sú mögulega dómsniðurstaða gæti fellt á okkur ríkari byrðar en innstæðutryggingartilskipunin sjálf kveður á um, þ.e. þessar rúmu 20 þúsund evrur, ég átta mig ekki á því. Það gæti kannski komið einhver málskostnaðarreikningur, eitthvað slíkt, en það er ekkert sem skiptir máli. Ég held fast við þá skoðun mína að þessi niðurstaða sé jafngild því að tapa málinu fyrir dómstólum.

Það er síðan alltaf álitaefni hvort okkur standi einhverjir aðrir kostir til boða. Það er greinilegt að ríkisstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Ég vil halda því fram að ríkisstjórninni hafi mistekist að halda uppi okkar málstað, eins og ég hef margoft bent á og síðast hér í ræðu minni áðan, gagnvart öllum þeim sem máli skipta. Þannig hefur þessi ríkisstjórn borið ábyrgð á því að tefla málinu í þann vonda farveg sem það er komið í.