138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn fullyrti að þetta snerist ekki lagaleg rök en hélt því svo fram að Íslendingar hefðu staðið sig verr en aðrar þjóðir við að fullnægja þeim lögum sem voru samþykkt hér eða þeirri tilskipun sem var innleidd í íslenskan rétt og hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að hefði verið gerð á fullkomlega eðlilegan hátt. Hvort er það? Hvort erum við að tala um að þetta snúist um lagaleg — ég áttaði mig ekki alveg á þessu, en auðvitað hlýtur þetta að snúast um þá skyldu sem okkur ber að framfylgja. Eigum við að borga? Eiga börnin okkar að borga? Ég beini þeirri spurningu til hv. þingmanns.

Ég held að samlíkingin um móður og barn hafi verið algjörlega fáránleg, ef ég get notað það orð, vegna þess að börnunum okkar er gert að taka á sig skuldir einhverra sem þau hafa nákvæmlega enga tengingu við, enga.

Eina málið? Nei, að sjálfsögðu ekki, en það er ríkisstjórnin sem stjórnar því hvaða mál eru hér á dagskrá. Og hvort Íslendingar sitji einir við þetta borð? Hollendingar og Bretar sátu einir við þetta borð. Við höfum aldrei getað staðið upprétt í þessari deilu og það er það sem við framsóknarmenn höfum verið að segja að við verðum að ná þeirri stöðu a.m.k. að við getum mætt þessum þjóðum uppistandandi þannig að við getum fengið það fram að á okkur sé hlustað, vegna þess að málstaður okkar er góður eins og fjölmargir af okkar færustu, íslensku sérfræðingum hafa bent á, sem og margar virtar lögmannsstofur og erlendir sérfræðingar. (Forseti hringir.) Allir segja þeir að Íslendingum beri hugsanlega ekki að borga þessar skuldir.