138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:00]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. fyrir svarið. Bara til að skýra þetta með bílinn og evrópska regluverkið snýst þetta ekki bara um lagalega skyldu og hvernig við innleiddum regluverkið, þetta snýst líka um hvernig við stóðum að framkvæmd. Þar stóðum við okkur ekki vel. Hv. þingmaður spyr: Eiga börnin að borga og hvaða tengingu hafa þau við málið? Ég vil á móti spyrja, og aftur kem ég (HöskÞ: Spurðu bara.) inn á það, (Gripið fram í.) hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson, að við glímum núna við pólitískan veruleika: Eiga börnin að borga fyrir það að Ísland færist niður í ruslflokk t.d. hvað varðar lánshæfismat? Eiga börnin okkar að borga fyrir að við getum ekki afnumið gjaldeyrishöft, að við getum ekki lækkað stýrivexti o.s.frv., þannig að við getum komið atvinnulífinu í gang og þar með bjargað heimilum landsins? Hvað ætlar hv. þm. að gera í því og hversu lengi ætlar hann að tefja endurreisn Íslands með því að hengja sig á þetta eina tré í skóginum?