138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einn af þeim ráðherrum og fyrrverandi þingmönnum stjórnarandstöðu sem alltaf hafa lagt áherslu á að skrúfa niður ráðherraræði. Það finnst mér að þessu þingi hafi nú tekist býsna vel á síðustu mánuðum og missirum. Ég segi bara um þetta eins og allt annað þegar ég sem ráðherra er spurður um gang þingsins: Þingið er fullvalda, þingið ræður sér sjálft. Ef þingið vill hafa einhvern tiltekinn hátt á afgreiðslu mála þá gerir það það. Það er svo einfalt mál. Ef þingið kýs að vinna þetta með einhverjum hætti er það bara niðurstaða og ég, eins og aðrir, sætti mig bara við það. Ég lýt vilja þingsins.