138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Guðbjarts Hannessonar gefur tilefni til margra athugasemda. Fyrst vildi ég nefna, vegna þess að hann vék að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og samþykkt Alþingis frá því í desember 2008, að þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um að ganga til samninga, var með skýrum hætti haldið til haga annars vegar lagalegum fyrirvörum, dómstólaleið þess vegna, og hins vegar var haldið til haga því að Alþingi kynni að hafna þeirri niðurstöðu sem kæmi út úr samningaviðræðum. Það var engin skuldbinding fyrir því að samþykkja hvaða samninga sem var og menn geta ekki haldið því fram.

Í annan stað vildi ég spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson hvað hann á við þegar hann talar um að keyra tæpt í fjárlaganefnd. Tæpt gagnvart hverju eða hverjum? Mér finnst mikilvægt að hann svari því

Í þriðja lagi vildi ég geta þess að það hefði verið meira gagn að ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem þekkir fyrirvarana frá því í sumar manna best ef hann hefði gert samanburð á fyrirvörunum frá því í sumar og þeirri óskapnaðarmynd (Forseti hringir.) sem liggur fyrir okkur í dag.