138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek það nú orðið sem hrós þegar hæstv. fjármálaráðherra ásakar okkur sjálfstæðismenn um að vera með orðaleppa og hártoganir, það finnst mér eiginlega bara hið besta hrós þegar það kemur úr hans munni.

En gott að heyra. Fullt af fundum, þeir hafa greinilega verið formlegir og þess vegna óska ég bara eftir því að fá þessar fundargerðir og ég vil fá að sjá hvernig fyrirvararnir voru kynntir.

En fyrstu viðbrögð, sagði hæstv. ráðherra, voru send og af lestri frumvarpsins má dæma að fyrstu viðbrögð hafi verið þau að málinu hafi verið hafnað. Er það rangur skilningur hjá mér, túlkun laganna, eins og ég las lagatextann hérna áðan? Deilir hæstv. fjármálaráðherra ekki þeim skilningi með mér að þeir ættu annaðhvort að samþykkja eða hafna fyrirvörunum? Leit hæstv. fjármálaráðherra svo á að hann hefði fengið þarna nýtt samningsumboð og ætti að semja um fyrirvara Alþingis?

Einnig sagði hæstv. fjármálaráðherra að náðst hefði mikilsverður árangur í Istanbúl-ferðinni og sl. fimmtudag. Má ég spyrja hæstv. ráðherra hvaða árangur það var? Hvar var málið statt t.d. þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, vék úr ríkisstjórninni? Hvað var það í málinu sem olli því að hæstv. þáverandi ráðherra, nú hv. þingmaður, ákvað að segja af sér? Hvað var það í málinu sem stóð í þingmanninum og hvað var gert til þess að betrumbæta það?