138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann gat um það hvort ekki þyrfti að breyta bæði efnahagslegu fyrirvörunum og lagalegu fyrirvörunum, en hann minntist ekki á samningana sjálfa. Ég hef reynt að skilja þessa samninga, nú er ég ekki lögfræðingur, sem hv. þingmaður er og ég botna satt að segja ekkert í þeim, bara ekki neitt, hvað þá að ég geti áttað mig á því hvernig þeir virka í enskum rétti. Það er enskur réttur sem á að gilda um þetta og það sem meira er, búið er að taka ákveðna fyrirvara úr lögunum sem gilda á Íslandi og setja inn í samningana en um þá gildir breskur réttur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem er lögfræðingur og lagakunnugur, hvað þetta þýðir eiginlega og hvort það sé ekki óskaplegt starf fyrir hv. fjárlaganefnd að fara í gegnum málið og skilja það. Komið hefur í ljós í dag að það er mikið skilningsleysi þeirra sem um þetta véla, tveggja ráðherra alla vega, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, þar sem þeir átta sig ekki á því hvað er að gerast í eignum Landsbankans þar sem búið er að frysta kröfu innlánstryggingarsjóðs með lögum sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra flutti hér á Alþingi og voru samþykkt 22. apríl. Hvernig er með það þegar við þurfum allt í einu að fara að þekkja bresk lög og breska dómaframkvæmd? Er það nú ekki farið að verða dálítið erfitt fyrir hinn venjulega þingmann að átta sig á hlutunum þegar staðan er þannig? Við eigum sennilega að gera þetta á tiltölulega stuttum tíma.