138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessar skýringar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér starfið í hv. fjárlaganefnd. Nú erum við í rauninni að fjalla um alls konar greinar í samningi sem er breyting á samningi þannig að í þessum samningi er ákvæði breytt og hvort tveggja fellur undir bresk lög. Verður ekki hv. fjárlaganefnd að fá til sín breska sérfræðinga í lögum til þess að fara í gegnum hvað þetta þýðir eiginlega? Smámistök þarna geta kostað fleiri tugi milljarða eða jafnvel enn þá meira, við erum að tala um svo óskaplegar upphæðir.

Hv. þingmaður nefndi Ragnars Halls-ákvæðið, sem er mjög athyglisvert, þ.e. fái maður hugsanlega greitt frá þremur stöðum sé hann betur settur samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins en ef hann fengi þetta allt á einum stað, þ.e. hann fær þá miklu meira en 20 þúsund evrur sem tilskipunin þó tryggir. Þetta finnst mér allt vera dálítið óhuggulegt, sérstaklega miðað við þann hraða sem er á málinu. Það á að afgreiða fyrir 20. nóvember og ég veit ekki hvernig þessir bresku sérfræðingar eru, þeir eru eflaust ekki ódýrir, ég veit að þeir eru mjög dýrir og þeir liggja heldur ekki alveg á lausu. Ég held því að það þurfi að vinda sér í það strax að afla fjárveitingar og eins að panta tíma hjá þessum ágætu mönnum svo þeir geti komið fyrir nefndina hér á Íslandi til að upplýsa um hvernig samningurinn virkar fyrir breskum dómstóli.