138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að það sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið að segja á göngunum um að þeir séu ósáttir við ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra, hefur bara verið hjóm eitt. Það er alveg ljóst í mínum huga eftir þessi orð hæstv. félagsmálaráðherra, vinnumálaráðherra, sem á að stuðla að því að halda stöðugleikanum áfram, að það er samhljómur í málflutningi samfylkingarmanna innan ríkisstjórnar og vinstri grænna þegar kemur að uppbyggingu í atvinnumálum, þ.e. það á setja stopp á þetta. Það á að hægja á öllum framkvæmdum.

Í sjálfu sér, frú forseti, kemur mér ekki á óvart að þessi tónn skuli vera sleginn af hálfu samfylkingarráðherra. Það sem mér þykir hins vegar verra, þar sem ég kem úr Suðvesturkjördæmi, er að þetta er oddvitinn í mínu kjördæmi, þetta er fyrsti þingmaður míns kjördæmis og hann er í rauninni bara að gera lítið úr þeirri atvinnuuppbyggingu sem átt hefur sér stað m.a. heima í Hafnarfirði. Ég spyr: Mun hæstv. félagsmálaráðherra styðja stækkunina á álverinu í Straumsvík? Eða mun hann reyna að setja fótinn fyrir frekari uppbyggingu á því svæði? Mér finnst þetta stóralvarlegt mál og þetta er tónn sem sleginn hefur verið af hæstv. félagsmálaráðherra í garð atvinnulífsins, fyrirtækin eru fólkið, fólkið er fyrirtækin. Það er samhengi þarna á milli og menn eiga ekki alltaf að vera að senda fólk í einhvern stríðsleiðangur og reyna að ala á tortryggni þarna á milli. Mér finnst miður sá tónn sem sleginn hefur verið af hæstv. félagsmálaráðherra í garð atvinnuuppbyggingar hér á landi og ekki síst í hans kjördæmi, þ.e. Suðvesturkjördæmi. Það er alveg ljóst að við Hafnfirðingar munum ekki geta sótt styrk til hæstv. félagsmálaráðherra þegar kemur að atvinnuuppbyggingu, hvað þá ef við ætlum að stækka álverið í Straumsvík.