138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:09]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á dómi sem féll í Hæstarétti í gær og varðar uppbyggingu á Vestfjarðavegi 60. Það er kannski ekki óskylt því máli sem verið var að ræða á undan, reyndar á svolítið annan hátt. Ástæðan er fyrst og síðast sú að dómur Hæstaréttar er gríðarlegt áfall fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum sem hafa háð áralanga baráttu fyrir uppbyggingu á Vestfjarðavegi 60 samfélaginu til heilla.

Dómur Hæstaréttar staðfestir dóm Héraðsdóms sem felldi úr gildi úrskurð umhverfisráðherra frá 5. janúar 2007 sem snerist um að heimila vegalagningu um Teigsskóg og þverun tveggja fjarða og taka þar með af tvo erfiða fjallvegi á þessari leið og færa veginn niður á láglendi. Það sem er umhugsunarvert og ég vil vekja athygli á er að þessi dómur segir að úrskurður ráðherra hafi brotið gegn lögum um mat á umhverfisáhrifum, en í dóminum segir orðrétt, með leyfi forseta:

„… með úrskurðinum hefði ráðherra farið út fyrir heimild sína með því að fallast á leið B með tilliti til umferðaröryggis. Mótmæltu þeir því að áhrif framkvæmdar á umferðaröryggi vega væru meðal þeirra þátta sem fallið gætu undir skilgreiningu á hugtakinu umhverfi …“

Sem sagt, úrskurður ráðherra tók tillit til ávinnings fyrir samfélag, heilbrigði og atvinnu en það er ekki tekið gilt fyrir dómi ávinningur á auknu umferðaröryggi. Ég velti því fyrir mér í fullri alvöru hvort þessi dómur kalli ekki á endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem ég fæ ekki betur séð en að túlkun Hæstaréttar geti sett vegagerð um allt land í uppnám.

Það er alveg ljóst að þessi vegagerð tefst það mikið um ófyrirséðan tíma og undirstrikar þar af leiðandi algera nauðsyn þess að ferjusiglingar yfir Breiðafjörð verði tryggðar alla daga vikunnar.