138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég get ekki orða bundist vegna ummæla hv. þm. Illuga Gunnarssonar og fleiri sem talað hafa úr þessu púlti varðandi lífeyrissjóði. Launafólk á Íslandi býr við þá stöðu að löggjafinn skyldar það til að leggja 12% af launum sínum í lífeyrissjóði. Þingmönnum kemur það ekkert við hvað gert er við þá peninga. Þetta eru peningar fólksins og þingmenn eiga ekki að vera að „agitera“ fyrir því að þeim peningum sé eytt í eitthvað annað en að fjárfesta varlega til að fólk geti fengið ellilífeyri þegar þar að kemur. Að forsvarsmenn lífeyrissjóða skuli velta því fyrir sér að taka þátt í einhverri stórfelldri atvinnuuppbyggingu í samkrulli við Samtök atvinnulífsins sem bera beina ábyrgð á því hruni sem varð hér í efnahagslífinu, er alveg fráleit hugmynd. Sú hugmynd að lífeyrissjóðir eigi að kaupa Landsvirkjun er alveg fráleit hugmynd. Sú hugmynd að lífeyrissjóðunum sé stjórnað af fulltrúum atvinnurekenda er fráleit hugmynd. Lífeyrissjóðirnir eru eign almennings og eign launafólks og þeim á að vera stjórnað af launafólki með hagsmuni launafólks í húfi og þingmenn eiga einfaldlega ekki að vera að skipta sér af því hvað gert er við þá peninga. Við höfum góða sögu af því hvað hefur gerst þegar þingmenn, og þá sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa komið auga á peninga í hirslum hingað og þangað. Fé án hirðis, hét það einhvern tíma, rústaði annan hvern sparisjóð á landinu. Einkavæðing bankanna sem voru í almannaeigu rústaði bankana og svo efnahagslífið. Þetta er umræða, frú forseti, sem þingmenn eiga að láta af og þeir eiga að leyfa almenningi og eigendum lífeyrissjóðanna að ráðstafa sínum fjármunum örugglega og eftir sínum geðþótta en ekki skipta sér af því.