138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta er búin að vera fróðleg umræða í dag og síðasta ræða hv. þm. Atla Gíslasonar toppaði eiginlega allt sem hér fór fram. Við höfum í sumar verið að reyna að festa hönd á atvinnustefnu þessarar ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Leyfum þúsund blómum að blómstra, segir hv. þm. Atli Gíslason, en hv. þingmaður gerir sér væntanlega grein fyrir því að það að leyfa þúsund blómum að blómstra skapar ekki nokkur einustu störf hér og það skapar ekki gjaldeyristekjur. En það gera hins vegar þau tækifæri sem hér liggja á borðinu og hér liggja í loftinu og felast í því að við nýtum orkuna okkar, sem felast í því að við leyfum og greiðum fyrir því að hér komi erlend fjárfesting inn til landsins. (Gripið fram í.) Það þýðir það líka að ríkisstjórnin, sem hv. þingmaður talaði svo fjálglega um að ætli sér að laga ástandið, hún hlýtur að ætla sér að standa við stöðugleikasáttmálann þar sem m.a. er fjallað um þessar framkvæmdir. Hún hlýtur að ætla sér að standa við sína eigin þjóðhagsspá, eða er það ekki meiningin, hv. þingmaður?

Virðulegi forseti. Að halda því fram að þau áform um skattahækkanir á orkufyrirtækin hafi ekki áhrif á þá framtíðarmöguleika sem við höfum á landinu er í besta falli barnalegt vegna þess að það er algerlega ljóst að þetta hefur gríðarleg áhrif á þá aðila sem eru að velta fyrir sér að koma hingað með erlent fjármagn. Það vita menn. (Gripið fram í.) Hvers vegna horfast menn ekki í augu við þessa staðreynd? Hvers vegna eru menn að reyna að slá ryki í augu fólks með þessu og tala um „allt eins og blómstrið eina“ o.s.frv.? Ég næ þessum málflutningi ekki og ég vona svo sannarlega að það sé einhver aðeins meiri innstæða og eitthvað aðeins meira efni í atvinnustefnu þessarar ríkisstjórnar. Það hefur hins vegar ekki birst mér hér í sölum þingsins eða þjóðinni. Það er gríðarlega alvarlegt mál en hér eru auðvitað margir atvinnulausir og ég held að hv. þingmenn ættu að setja það á forgangslistann hjá sér að vinna að því öllum árum að fjölga störfum hér á landi.