138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrst vegna ræðu hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur vil ég taka undir að ef ekki er tekið tillit til sjónarmiða um umferðaröryggi í veigamiklum úrskurðum er það eitthvað sem við þurfum að taka til málefnalegrar skoðunar í þinginu og endurbæta. Sömuleiðis hlýtur þessi aðgerð auðvitað að kalla á að menn skoði styrkingar varðandi ferjusiglingar yfir Breiðafjörð til að bæta aðstöðu manna á sunnanverðum Vestfjörðum eftir þennan dóm.

Um hina umræðuna sem hér hefur farið fram tel ég hins vegar að hún gefi okkur, eins og ýmislegt annað, tilefni til að íhuga aðeins þennan dagskrárlið. Hann hefur einhvern veginn þróast með þeim hætti að ráðherrar taka ekki þátt í honum. Ég held að hann hafi að mörgu leyti verið miklu skarpari og skemmtilegri þegar við tókum öll þátt í umræðum undir þessum lið og hefði verið það þennan morgun líka. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að allt sem ríkisstjórnin hefði gert og allt sem hún ætlaði að gera væri til að dýpka hjá okkur kreppuna og ég verð að segja að mér þykir það nokkuð ofsagt. Ég held til að mynda að stöðugleikasáttmálinn hafi verið gríðarlega mikilvægur. (Gripið fram í.) Má taka undir að það er gríðarlega mikilvægt að framhalda honum og það er gríðarlega mikilvægt að skapa skilyrði fyrir nýjar fjárfestingar. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur m.a. unnið að undirbúningi fjárfestingarsamninga sem tryggir fjárfestum stöðugt umhverfi og við þurfum að huga að fyrirsjáanleika í skattlagningu. En um leið þurfum við auðvitað að horfa til þess að við erum í samanburði Efnahags- og framfarastofnunarinnar með lægstu skatta innan OECD á atvinnulífið. Við þurfum að ræða það málefnalega hvort það geti ekki með hóflegum hætti tekið þátt í því að axla þær byrðar sem við þurfum nú að taka og hvaða skattform eru best. Ég held að auðlindagjöld geti þar sannarlega komið að góðum notum vegna þess að þau draga þá (Forseti hringir.) úr þörf fyrir að hækka til að mynda tekjuskatta sem hafa að mörgu leyti miklu neikvæðari áhrif á rekstur fyrirtækja og á fjárhag fólks.