138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni enn og aftur um fyrirvarana og ríkisábyrgð á Landsbankaláninu stóra sem við sitjum uppi með eftir hrun bankakerfisins og glæfralega starfsemi bankanna á síðustu árum og missirum. Það hefur komið mér í huga við að hlýða á umræðuna að oft er það þannig í stjórnmálunum að sætaskipan ræður hlutskipti, það er létt snörun mín á enska orðtakinu „Where you stand depends on where you sit“, af því að hér hafa nokkrir þingmenn haft mikil hlutaverkaskipti í umræðunni. Og án þess að ég þurfi að fara að nafngreina einstaklingana hafa allir sem hlýtt hafa á umræðuna um Icesave síðasta sólarhringinn og í allt sumar gert sér grein fyrir hverjir voru í ríkisstjórn þegar hrunið varð og hverjir voru ekki í ríkisstjórn þá, hverjir voru í ríkisstjórn í aðdraganda hrunsins, hverjir skópu kerfið sem við bjuggum til ... (VigH: Framsóknarflokkurinn … Icesave.) Frú forseti. Gæti ég fengið frið til að tala? (Gripið fram í.) Sætaskipan ræður hlutskipti í þessari umræðu eins og öðru og er fróðlegt að fylgjast með því hvernig sumir hafa fortíð og muna hana og aðrir hafa fortíð og muna hana ekki, en það skiptir ekki máli. Viðfangsefnið er eitt og hið sama og ég vil halda því fram að í þessu máli gildi það einu hvaða íslenskir stjórnmálaflokkar sitja í ríkisstjórn eða eru við stjórnvölinn. Enginn kemst frá því að leysa þetta mál og enginn, hvorki stjórnmálamaður né stjórnmálaflokkur, kemst frá því brýna verkefni að leysa okkur úr þeirri herkví sem Ísland hefur verið í síðustu mánuði og missiri. (Gripið fram í.)

Síðastliðið haust þegar bankarnir féllu og neyðarlögin voru sett voru íslensk stjórnvöld, eins og stjórnvöld um allan heim, að reyna að gæta brýnustu hagsmuna þjóðar sinnar. Það gerðu bandarísk stjórnvöld, það gerðu bresk stjórnvöld svo um munaði, það gerðu stjórnvöld um alla Evrópu. Munurinn var kannski sá að þar gátu menn notað ríkissjóð til að bjarga einstökum bönkum. Þar horfðust stjórnmálamenn ekki í augu við kerfishrun eins og varð á Íslandi. Það er óþarft að taka það fram og hefur auðvitað verið margítrekað í þessari umræðu að það sem gerðist hér á landi var auðvitað einstakt, fordæmalaust, við höfum verið að glíma við fordæmalausar aðstæður, um það hljótum við öll að vera sammála, hver sem skoðun okkar á lausnunum er. En auðvitað hafa líka verið gerð mörg mistök, bæði hér og annars staðar, á þessari leið, fyrir bankahrunið, eftir bankahrunið og í því að reyna að leysa þetta mál, reyna að losa okkur úr þeirri klemmu sem Íslendingar eru í.

Hér hefur mikið verið talað um minnisblöð og það væri hægt að tala um gerðardóm sem við sögðum okkur frá og það væri hægt að tala um margt annað. Það vita allir hvað gerðist og það vita allir hver ber ábyrgð á hverju í því. Það er hvorki sómi af því né annað að reyna að segja sig frá þeirri ábyrgð. Við erum hér, samfylkingarmenn, við erum eini flokkurinn sem setið hefur í ríkisstjórn sl. tvö ár samfleytt, það liggur algerlega fyrir. Það þýðir ekki að þræta um þá staðreynd frekar en um hverjir það voru sem hér réðu ríkjum áður fyrr. Það liggur bara fyrir. Málið er hins vegar að við verðum að leysa þetta mál. Við þurfum að ljúka Icesave-deilunni. Við þurfum að losa íslenskt efnahagslíf úr því umsátri sem það hefur verið í síðasta árið og í þeirri stöðu höfum við því miður ekki þann styrk og þá stöðu sem mörg önnur ríki hafa. Við erum ekki stórveldi, við erum lítið ríki í Evrópu og við höfum líka lent í því að stór ríki hafa beinlínis beitt okkur bolabrögðum, beitt okkur efnahagslegum árásum og þvingunum, eins og Bretar gerðu 8. október 2008, sem var fyrirlitleg árás á sjálfstætt ríki. Ég man að ég sagði við félaga mína þennan morgun, sem er okkur öllum ógleymanlegur: Þeir gætu allt eins verið að varpa á okkur sprengjum, af því að þetta var í raun árás þótt efnahagsleg væri. En það var gert, við gátum ekki stöðvað það. Við stóðum frammi fyrir því í nóvember 2008 að öll ríki Evrópu, frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, vinir okkar vestan hafs og þannig mætti áfram telja, sögðu við okkur það sem þau segja enn þann dag í dag: Þið verðið að leysa þetta mál. Og frammi fyrir því verkefni höfum við staðið, það er í raun stóra verkefnið þegar menn takast á um uppbyggingu efnahagslífs og endurreisn samfélagsins, að ljúka þessu leiðindaverki, ganga sómasamlega frá því, taka til við endurreisnina, byggja upp traust og orðspor Íslands erlendis þannig að við getum átt í eðlilegum samskiptum og viðskiptum við aðrar þjóðir, fengið hingað fjárfestingu og fengið lánstraust. Það er í rauninni það sem málið snýst um. Frá því kemst enginn stjórnmálamaður og gildir þá einu í hvaða flokki hann er eða hvar hann eða hún var staddur eða stödd haustið 2008. Verkefnið er eitt og hið sama og það ber okkur að leysa. Það er beinlínis pólitísk skylda okkar að leysa þetta verkefni því að annars höfum við gefist upp við að endurreisa íslenskt efnahagslíf úr hruninu haustið 2008. Ef við gefumst upp við þetta verkefni höfum við gefist upp við að gera það. Það verðum við að leysa.

Lánshæfi Íslands er að öllum líkindum núna í BBB÷. Einu sinni vorum við svokölluð „triple A“, eins og sagt er á bankamannamáli, með AAA+ lánshæfi. Við römbum á brúninni og erum við það að falla í ruslflokkinn. Þá er ekkert annað að gera en að sinna tiltektinni, klára málin og reyna að tosa þjóðina upp úr hruninu, að gera lánshæfið þannig að hér sé hægt að starfrækja ekki bara ríkissjóð heldur líka fyrirtæki, stórfyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga. Lánshæfi þeirra er beintengt við lánshæfi ríkissjóðs, það verður ekki sundur skilið. Frammi fyrir því verkefni stöndum við.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um efni fyrirvaranna. Það hefur verið farið ítarlega yfir þá í þessari umræðu, þær skuldbindingar sem enn er deilt um og lagalegu stöðuna. Á stundum hefur mátt halda að Ísland hefði átt að semja við sjálft sig um þessi mál. Það er ekki þannig. Við höfðum tvo viðsemjendur, Breta og Hollendinga, harða, ósveigjanlega, erfiða, stóra, valdamikla viðsemjendur. Það er einfaldlega staðan sem við vorum í og erum í enn í raun þar til við klárum þetta mál og það er í þeim samningum eins og öðrum samningum að enginn fær allt sem hann vill, en við reynum eftir bestu getu. Ég trúi því að hver einasti stjórnmálamaður, hvort sem hann var í fyrri ríkisstjórn, minnihlutastjórninni eða í þeirri sem núna situr, hafi reynt sitt besta til að leysa þessi mál. Það breytir því ekki að menn gerðu mistök, það gera allir mistök. En menn verða að reyna sitt besta og menn verða að leysa þetta.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði fyrr við þessa umræðu: Hver er kostnaðurinn við að ljúka þessu máli ekki? Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að hann yrði ærinn efnahagslega og hann yrði óbærilegur pólitískt. Við getum ekki sem ábyrgir stjórnmálamenn setið hér og látið sem hægt sé að láta þetta mál danka lengur. Icesave hefur staðið öllu fyrir þrifum í næstum því ár í rauninni. Það þarf að leysa þetta mál, það þarf að komast áfram. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim efnahagslegum byrðum sem þetta leggur á íslenska skattgreiðendur. Og ekki ætla ég að gera lítið úr ábyrgð þeirra sem brugðust, eftirlitsstofnana, stjórnvalda, löggjafans eða andvaraleysi fjölmiðla og andvaraleysi almennings þess vegna, ég ætla ekki að gera lítið úr því. En við verðum að leysa þetta mál, við höfum enga aðra kosti. Við getum svo sem alveg eytt þeim vikum sem eftir lifa fram til jóla í að þræta um þann samning sem hér liggur fyrir og fyrirvarana sem Alþingi samdi um í rauninni við sjálft sig í allt sumar (Gripið fram í: Setti lög.) og setti lög um, það er rétt.

Hver eru brýnustu verkefnin? Á borðum þingmanna liggur frumvarp til fjárlaga árið 2010, mesta niðurskurðarfrumvarp sem við höfum séð langalengi. Ætlum við bara að afgreiða það eftir hendinni 23. desember þegar við erum búin að eyða haustinu í að ræða um fyrirvarana og samninginn sem við höfum rætt í allt sumar? Hvernig hyggjast þingmenn verja tíma sínum á næstu dögum og vikum til að stuðla að lausn þessa máls og til að losa Ísland úr þeirri herkví sem við höfum svo sannarlega verið í og til að stuðla að því að landið, fyrirtækin, fái aftur lánstraust, traust annarra þjóða? Til að við getum í raun og veru byggt upp efnahagslíf og endurreist samfélagið eins og við viljum gera, af því að það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra að gera það. Okkur mun ekki takast það nema við leysum þetta mál sómasamlega. Engum þykir það létt, enginn gerir þetta með gleði, að sjálfsögðu ekki, en það er verkefni sem við stöndum frammi fyrir og við eigum að leysa það fljótt og vel á næstu dögum og vikum. Svo eigum við að snúa okkur að því að endurreisa efnahagslíf þessa lands.