138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað misskilur hv. þingmaður þetta vegna þess að það stendur, með leyfi forseta, orðrétt í samningnum:

„Hvorki lánveitandi né breski tryggingarsjóðurinn munu verða ábyrgir fyrir neinum kostnaði, tapi eða skaða sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið verða fyrir í tengslum við samning þennan eða uppgjörssamninginn eða á annan hátt í tengslum við Landsbankann fyrir undirritunardag þessa samnings“, sem er 5. júní.

Það er því alveg klárlega skrifað inn í samninginn að fallið er frá þessum rétti gagnvart því að sækja skaðabætur vegna setningar hryðjuverkalaganna sem höfðu í sjálfu sér gríðarleg áhrif á eignir Landsbankans og náttúrlega eignir okkar Íslendinga allra. Það er því skýrt skrifað inn í þennan samning. Það hefur þá því miður bara farið fram hjá hv. þingmanni. Það þarf ekki að deila um það. Það stendur hérna.

Það sem hún vitnar í er í sambandi við lagalega skyldu Íslendinga og það er bara allt annar hlutur. En þetta er (Forseti hringir.) skrifað inn í samninginn.