138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það geta verið áhöld um hvort viðsemjendur okkar Íslendinga hafi verið tveir. Það má alveg segja að viðsemjendur þingsins hafi verið þrír, Bretar, Hollendingar og íslenska ríkisstjórnin, öll í sama pakkanum. Þannig blasti þetta mál lengi vel við gagnvart mér. En mér fannst áberandi að hv. þingmaður, sem talar alla jafna mjög skýrt og skorinort, gat ekki svarað því hér hvort það væri ekki þannig að þingið hefði öll tök á málinu án þess að framkvæmdarvaldið væri að skipta sér af eða koma með bein eða óbein skilaboð, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði í raun í gær. Þar var óljóst sagt: Þingið hefur þetta en ekki vera að fikta allt of mikið í málinu. Þið megið ekki breyta allt of miklu, þá fer allt í loft upp. Það verður að koma alveg skýrt fram af hálfu stjórnarliða að þingið er með forræði málsins, ekki ríkisstjórnin.