138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur þingið málið á sínu forræði, skárra væri það nú. Það verður rætt og leitt til lykta í hv. fjárlaganefnd og svo afgreitt frá hinu háa Alþingi. Það breytir því ekki að menn geta haft skoðanir á því hvaða lausnir þeir vilja eða hvort þeir vilja breytingar á málinu yfir höfuð og fer það þá væntanlega eftir því hvorum megin hryggjar menn liggja, hjá stjórnarandstöðu eða stjórnarmeirihluta. En það segir sig sjálft að þingið hefur málið í sínum höndum. Það mun þá koma í ljós í meðferð málsins og svo við afgreiðslu hér við 2. umr. hvar sá meiri hluti liggur sem á endanum þarf til að afgreiða þetta mál.