138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verð ég að ítreka það enn og aftur að ég er ekki rétta manneskjan til að svara þessari spurningu af því að ég er ekki forsætisráðherra landsins og hef ekki staðið í þessum samskiptum. En hæstv. forsætisráðherra getur vafalítið svarað þessu skýrt og rétt. Ég vil bara ítreka það og ég held að það hafi verið og gildi þá einu í raun úr hvaða flokki þingmenn koma að við höfum öll staðið í því síðustu vikur og mánuði og í samskiptum, hvort sem það hefur verið í Evrópuráðinu eða ÖSE eða Norðurlandaráði eða annars staðar, að koma skoðunum okkar Íslendinga til skila á þessu máli og við höfum og við höfum gert það ærlega og heiðarlega, a.m.k. á þeim fundum sem ég hef verið. Ég vil líka minna á og mig minnir að það hafi verið hluti af gögnunum í svokallaðri leynimöppu í sumar að þar var útskrift m.a. af samtali þáverandi hæstv. utanríkisráðherra og Davids Milibands, utanríkisráðherra Breta, frá því í desember 2008 og þar fór ekkert á milli mála hvað var að fara á milli ríkjanna um þessi mál.