138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:22]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst ætla ég að svara þessu sem hv. þingmaður spyr varðandi Ragnar Hall. Það má kannski segja að það ákvæði hafi bæði veikst og styrkst eins og það er núna. Það sem er gagnrýnt er aðallega þetta með EFTA-dómstólinn. Ef maður skoðar lögin frá því í sumar er reyndar komið inn á það og ýmsir sem töluðu um að þetta hlyti að koma inn á Evrópurétt og þá EFTA-dómstólinn sérstaklega.

Það sem hefur styrkst varðandi þetta er að ef niðurstaðan verður sú að svona eigi að greiða úr búi Landsbankans gerist það sjálfkrafa. Í lögunum frá því í sumar var talað um að ræða málin ef þetta yrði niðurstaðan. Nú gerist þetta sjálfkrafa þannig að hvað það varðar tel ég réttilega að fyrirvararnir hafi styrkst. Því er það eins og ég segi, þetta hefur bæði e.t.v. veikst og styrkst.

Varðandi málstað Íslands út á við. Ég held að við höfum öll reynt af megni, ríkisstjórnin og þingmenn, að halda málstað Íslands á lofti úti í heimi og það hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar sannarlega gert í þessu máli síðustu daga og vikur þannig að mér finnst ekki sanngjarnt að segja að það hafi ekki verið gert.

Varðandi samninganefndina var það auðvitað þannig að lögin frá því í sumar sögðu einfaldlega fyrir um að það ætti að kynna Bretum og Hollendingum þessa fyrirvara. Við erum síðan að fá viðbrögð þeirra og niðurstöður úr þessari kynningu og því hvað er mögulegt að allir aðilar geti sæst á og það er þetta. Ég held því að það snúist ekki um einhvers konar samninganefnd, hvernig hún hefði átt að vera, þetta er niðurstaðan út frá þeim fyrirvörum og lögum sem Alþingi samþykkti í sumar og þeim viðbrögðum sem Bretar og Hollendingar sýna nú.