138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við viljum öll ljúka þessu máli. Það er enginn — og ég leyfi mér að fullyrða, ég geri það yfirleitt ekki að tala fyrir munn allrar þjóðarinnar en ég get alveg örugglega fullyrt að öll þjóðin vill ljúka þessu máli. Við viljum ljúka því þannig að við séum algerlega sátt við það að við séum komin út á enda með málið. Ég verð að segja að mér heyrist hv. þingmaður vera komin út á enda með málið. Þess vegna vil ég ítreka spurningu mína: Ef helstu sérfræðingar í þessum málum segja okkur við vinnu nefndarinnar og tjá sig um þetta með þeim hætti að þeir séu ósáttir við þetta, að málið sé ekki komið á enda, telur þingmaðurinn að Alþingi geti haft á það áhrif?

Þingmaðurinn sagði: Alþingi getur komið með alls konar yfirlýsingar, en á henni mátti skilja að það mundi ekki þýða neitt þó Alþingi kæmi með alls lags yfirlýsingar. Er málið núna orðið þannig að það skiptir bara máli að loka því, við komumst ekki lengra? Eigum við ef það kemur í ljós við vinnu nefndarinnar engan kost á því að taka höndum saman og bæta það enn frekar?