138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:36]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann mjög að meta það að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson taki sér skákmálið í munn. Ég er reyndar ekki alveg sammála honum um að það séu bara þrír kostir í stöðunni, jafntefli, sigur eða tap. Ég er heldur ekki sammála þeirri lýsingu að hér séu byrjendur að tafli móti stórmeistara. Ég held einfaldlega að það sé þannig að annar aðilinn sem kom að taflinu kom að stöðunni á borðinu svívirðilega sér í óhag með hróki, riddara og biskup undir gagnvart þeim sem hann var að tefla við. Það hefur verið staða Íslands. Við höfum öll, svo sannarlega líka fyrri samninganefndir Íslands og allt það fólk sem hefur komið að þessu máli hefur verið að reyna að vinna úr þessari ómögulegu og erfiðu stöðu, þessari þröngu stöðu. Svo sannarlega eru þetta stórveldi með miklum mun meiri styrk en við á ýmsan hátt en það er meiri styrkur í krafti valds en endilega siðferðilegs styrks skulum við segja. Það er ýmislegt líka sem leggst með okkur í þessari deilu.

Sækja sér þekkingu. Já, að sjálfsögðu eigum við að gera það. Ég tel reyndar að það hafi verið gert, ekki bara í sumar. En ég verð að segja enn og aftur að staðan á borðinu er orðin þannig að það er heillavænlegast fyrir Ísland sem hefur verið að tefla þessa erfiðu stöðu að takast í hendur við andstæðinginn og sættast á þær málalyktir sem fyrir eru. Ég held að við séum búin að vefa öryggisnet Íslands eins þétt og við getum og líka vegna þess að þetta er ekki eina málið sem við verðum að leysa úr þar sem lyktir þessa máls skipta líka máli fyrir allt hitt sem við verðum að fara að ráðast í og verðum að ráðast í.