138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nokkur stikkorð í lífi þessarar ríkisstjórnar sem er ekki mjög löng: Stjórnarskrárbreytingar, endurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni, aðildarumsóknin að ESB, orku- og auðlindaskattar, skuldavandi heimilanna, Icesave. Allt eru þetta mál sem við viljum leysa en allt eru þetta mál sem ríkisstjórnin hefur sett í loftið. Í stað þess að leita samstöðu og samheldni meðal þingsins hefur ríkisstjórnin valið að setja málin alltaf í loft upp.

Það væri mjög freistandi að fara yfir allt sem hér stendur, ég mun gera það betur við 2. umr. þegar þingið er vonandi búið að fá það svigrúm sem það þarf til þess að laga þetta mál allt. Það væri mjög freistandi að fara yfir það. Að mínu mati er algjörlega búið að kollvarpa málinu frá núgildandi lögum, frá því þegar þingið tók málið í sínar hendur og bjargaði því sem bjargað varð eftir ömurlegan samning sem komið var heim með 5. júní á þessu ári. Það var til fyrirmyndar þá hvernig þingið tók fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og sýndi önnur vinnubrögð sem maður hefði vonast til að á þessum tímum, á nýjum tímum, að ný ríkisstjórn mundi sjá sóma sinn í að inna af hendi, en það var ekki gert.

Brussel-viðmiðin eru fokin út í vind. Brussel-viðmiðin voru einmitt í þá veru að það ætti að taka tillit til íslenskra hagsmuna og aðstöðu og erfiðleika sem væru hér heima. Það er ekki gert. Af hverju er það ekki gert? Jú, nú eru stjórnarþingmenn að reyna að telja okkur trú um að þetta séu lítils háttar breytingar. Hæstv. fjármálaráðherra talaði þannig og ýmsir stjórnarþingmenn hafa gert það. Það er verið að þæfa málið, ég talaði um að það er verið svolítið að blekkja okkur. Það er verið að þreyta þjóðina og þreyta þingið og maður finnur það. Ég var á fundi í gær þar sem var sagt: Þorgerður, er þetta ekki bara komið gott? Þetta er vont mál og allt það. Já, þetta er vont mál, en svona þreyta getur kostað okkur, með því að segja já í málinu eins og það lítur út núna mun það kosta okkur stórar fjárhæðir og erfiðar fyrir komandi kynslóðir, 270 milljarða miðað við 90% heimtur fram til ársins 2016. Það er niðurstaðan ef við þreytumst svo mikið að við gefumst upp núna.

Það er hægt að fara yfir þetta, halda miklu lengra mál yfir þetta allt saman. Það er hægt að fara yfir það af hverju þessi leyndarhyggja var á undirskrift samningsins. Fjölmiðlar fengu ekki aðgang að þessari sögulegu undirskrift þegar var skrifað undir samninginn um daginn. Af hverju ekki?

Það er líka hægt að fara yfir það sem Ragnar Hall hefur sagt, Ragnars Halls-ákvæðið svonefnda, sem þingið tók inn og setti inn og menn eru að reyna að segja að sé komið núna inn í samningana, það er útvatnað. Það eru ekki mín orð, það eru orð Ragnars Halls. Eigum við að taka mark á sérfræðingum eða ekki? Ég held að ríkisstjórnin ætti að ákveða sig í því efni. Ég held og er sannfærð um að þegar maður er búinn að fara vel yfir frumvarpið sem slíkt er búið að gjörbreyta því. Það þýðir að vinnubrögð þingsins frá því í sumar hafa kannski ekki eins mikla þýðingu og maður hefur vonast til.

Það er líka hægt að fara yfir það í allri þessari sögu af hverju menn, eftir allar sterku og miklu yfirlýsingarnar, ekki bara síðasta árs heldur síðustu ára, þegar menn til að mynda voru að krefjast þess að við stæðum í lappirnar og tækjum okkur út m.a. af lista hinna staðföstu þjóða, að við sendum skýrar yfirlýsingar út til umheimsins, þá hefur það ekki verið gert í þessu erfiðasta milliríkjamáli síðari tíma í okkar sögu. Það voru alltaf einhver tveggja manna samtöl, þriggja manna samtöl þar sem mál okkar er sett fram, en það hefur aldrei, og það hefur greinilega komið fram hér í andsvörum, það hefur aldrei verið gefin út harðorð yfirlýsing af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það væri mjög freistandi að fara yfir þetta.

Það væri líka freistandi að fara yfir það og spyrja hæstv. fjármálaráðherra, og það verður eflaust gert í fjárlaganefndinni, hver skuldastaða íslenska ríkisins sé, hver skuldastaða þjóðarbúsins sé og hvernig hún hafi breyst frá síðasta hausti. Eru ekki margar forsendur brostnar? Verðum við ekki að vita þessa stöðu nákvæmlega áður en farið verður í það að samþykkja þann óskapnað sem hér um ræðir?

Það væri hægt að fara yfir margt í kringum þetta en ég vil fyrst og fremst ræða vinnubrögðin, ég vil ræða vinnubrögðin í tengslum við málið allt. Ég tek undir það sem margir hafa sagt, bæði hv. þm. Ásbjörn Óttarsson í mjög góðri ræðu í dag og líka hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hér áðan, að það hafa mörg mistök verið gerð. Ég fagna því sérstaklega að eftir að menn höfðu tekið málin í sínar hendur, núverandi ríkisstjórn, skipt um samninganefnd, ætlaði að ná í þessa glæsilegu niðurstöðu sem menn voru búnir að tilkynna um, en menn sáu að þetta var mun erfiðara en menn héldu, er ég fegin því að heyra að gamla, rispaða platan var ekki dregin fram úr skápnum í dag þar sem sjálfstæðismönnum var kennt um allt. Það var nefnilega gærdagurinn svolítið sem talaði í gær og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra. Það var aðeins meiri sátta- og bjartsýnistónn í ræðu hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur.

Þó er það þannig að mér fannst ég greina bæði í máli hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur að það eigi ekki að veita þinginu þetta svigrúm. Það verður bara yfirborðskennt svigrúm sem þingið eigi að fá, það sé búið að berja menn til hlýðni. Við skulum vona að svo sé ekki og ég vona að fjárlaganefnd fái þann tíma sem þarf til að fara yfir málin með öllum þeim sérfræðingum sem hún mun kalla til.

Af hverju verður mér svona tíðrætt um vinnubrögðin? Jú, það eru þessi stóru mál sem ég kom inn á áðan og hef gert áður hér, m.a. úr þessum ræðustól. Það viðurkenna allir að þetta mál er erfitt, það eru allir búnir að gera það í ræðunum hér í morgun, allir, og það er erfitt, þetta er mál sem þarf að leysa. Þess vegna hefði ég kosið, frú forseti, að þegar þingið afgreiddi málið núna í ágúst, Icesave-málið, að ríkisstjórnin hefði farið með fulltingi allra stjórnmálaflokka, hefði farið og kynnt afstöðu þingsins og talað máli okkar gagnvart helstu hagsmunaaðilum því að við höfum fundið það að þegar við höfum rætt við þingmenn, rætt við erlenda fjölmiðla, þá hefur málflutningur okkar hlotið hljómgrunn, hann hefur fengið hann. Menn skilja hvað um er að ræða þegar við höfum farið út í það að útskýra Icesave-málið allt saman.

Ég hefði kosið að ríkisstjórnin hefði sýnt þann dug fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og það líka í samræmi við margháttaðar yfirlýsingar um ný vinnubrögð, önnur vinnubrögð, að menn hefðu fylgt eftir þeirri breytingu sem var hér í þinginu í sumar, að menn hefðu fylgt þeirri breytingu eftir og kallað til liðs við ríkisstjórnina formenn allra stjórnmálaflokka. Það má kannski alveg segja það hér hreint út sagt: Af hverju voru formenn allra stjórnmálaflokka einfaldlega ekki bara lokaðir inni til þess að leysa þetta mál og stærstu málin sem við sjálfstæðismenn höfum verið að kalla eftir, m.a. skuldavanda heimilanna þar sem tillögur frá okkur og framsóknarmönnum hafa verið talaðar niður í staðinn fyrir að tala saman? Þær hafa verið talaðar niður. Af hverju hafa ekki verið kallaðir saman þverpólitískir hópar varðandi lausnina á því erfiða máli eða varðandi gengismálin og gjaldeyrishöftin, varðandi atvinnumál og framkvæmdir? Það hefði verið mjög fýsilegt að loka menn inni, formenn flokkanna, og ég segi þetta ekki út af neinni illkvittni í garð formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að loka þá inni með forustumönnum ríkisstjórnarinnar, síður en svo. Ég undirstrika með þessum hætti að vinnubrögðin í þessu máli öllu, alveg frá upphafi, hafa ekki verið til fyrirmyndar og menn hafa dottið í gömlu skotgrafirnar þess í stað. Þingið tók allt sumarið í að reyna að laga málin.

Við höfum öll hér metnað til þess að standa vörð um íslenska hagsmuni. Af hverju tók ríkisstjórnin málið ekki lengra og reyndi að fá alla stjórnmálaflokkana, alla, ekki bara stjórnarflokkana heldur alla stjórnmálaflokkana á þingi til þess að fara í þennan leiðangur að tala fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, tala máli okkar alls staðar? Það er að mínu mati ekki boðlegt að setja málið fram með þeim hætti að það séu engir valkostir. Við áttum að fara saman í þetta, það átti að loka þá inni, formenn stjórnmálaflokkanna, til þess að komast að niðurstöðu í þessu máli. Það hefði verið miklu betra fyrir ríkisstjórnina að fá samstöðu um það að við ætluðum að standa vörð um hagsmuni okkar, að við ætluðum að standa vörð um það sem þingið breytti í sumar.

Svo tala menn á stundum eins og breytingarnar hér á þinginu hafi verið þannig að við ætluðum bara ekkert að borga neitt. Það var nefnilega vel boðið í sumar, það var rausnarlega boðið. Frá 2016 til 2024 ætluðum við að greiða. Ef hagvaxtarspá Seðlabankans mundi ganga eftir, og það eru forsendur m.a. þeirra plagga sem lögð hafa verið fram, ef þær mundu ganga eftir værum við búin meira og minna að greiða upp skuldina vegna Icesave árið 2024. Hins vegar, ef við hefðum ekki burði til þess í samræmi við hagvöxt að greiða, mundum við ekki greiða. Við ætluðum bara að ganga frá málinu að við mundum greiða í samræmi við greiðslugetu.

Því grundvallarprinsippi er ríkisstjórnin búin að kippa út, það er algjört grundvallarprinsipp. Það er búið að umbylta allri hugmyndafræði þingsins, löggjafarsamkundunnar, hvernig við nálgumst þetta mál. Það er búið að umbylta því þannig að það er búið að taka stærsta pakkann, sem eru vextirnir, og við eigum alltaf að greiða þá, óháð því hvernig staða ríkissjóðs, þjóðarbúsins er hverju sinni. Þess vegna segjum við: Það er búið að kollvarpa málinu. Ég spyr menn hér: Af hverju var ekki reynt að halda áfram á þessum tímum ákalls um aukna samstöðu, af hverju tók ríkisstjórnin ekki þetta frumkvæði og leiddi alla stjórnmálaflokkana áfram í málinu?

Málið var nefnilega ekkert búið þegar þingið var búið að samþykkja þetta, málið var þá ekkert búið. Það þurfti að fylgja því eftir. Það hefði verið mikill styrkur fyrir ríkisstjórnina ef hún hefði farið út og sagt við samningamenn Breta og Hollendinga: Við höfum í raun ekki vald á þessu máli lengur. Það er þingið, elsta löggjafarsamkoma í heimi, sem hefur vald á málinu, það er hún sem ræður för í þessu máli. Það eru ný vinnubrögð á þingi sem stuðla að því að okkar styrkur og afl er fólgið í því að við erum með stuðning þingsins í þessu máli.

Það er alveg ljóst líka af yfirlýsingum til að mynda fjármálaráðherra Hollands, Wouter Bos, að þeir gera sér grein fyrir því að þingið mun hafa forræði í þessu máli áfram. Þeir setja alla fyrirvara varðandi framgang málsins og þá skulum við nýta þá fyrirvara í þá veru að við eigum að breyta málinu þannig að það verði til sóma fyrir okkur og komandi kynslóðir. Það er mikilvægt að fjárlaganefndin fái þetta svigrúm, fái þetta tækifæri án þess að framkvæmdarvaldið andi ofan í hálsmálið á fjárlaganefndarmönnum næstu daga. Mér segir svo hugur að það eigi að klára þetta mál sama hvaða röksemdafærsla verður sett fram og lögð fram fyrir fjárlaganefndarmenn og ég vona að svo verði ekki. Ég vona að þetta sé ekki einhver sýndarmennska sem hefur verið hér í einn og hálfan dag í þá veru að þingið eigi að hafa fullt forræði en síðan hafi það það ekki. Vinnubrögðin benda til þess að framkvæmdarvaldið muni stjórna þessu öllu saman.

Ég fer aftur inn í þau mál sem hafa sett þjóðina líka í uppnám núna á undanförnum mánuðum, á þessum stutta líftíma ríkisstjórnarinnar. Ég talaði um stjórnarskrárbreytingarnar, ég talaði um aðildarumsóknina að ESB, skuldavanda heimilanna, endurreisn atvinnulífsins og Icesave. Allt eru þetta mál sem ríkisstjórnin hefur sett fram með þeim hætti að það er frekar órói, það er frekar upplausn en samstaða.

Við sjálfstæðismenn nálguðumst málið með þeim hætti í sumar, og ég hef sagt það að við fengum bágt fyrir hjá mörgum að við skyldum leyfa okkur að fara í þá vegferð að reyna að breyta málinu. Sumir sögðu: Þið eruð að bjarga ríkisstjórninni. Þetta mál snýst ekkert um ríkisstjórn Íslands, þetta snýst ekkert um það að við sjálfstæðismenn viljum kosningar eða að komast í ríkisstjórn. Þetta snýst um það að við hér í þessum þingsal stöndum saman um að hagsmunum Íslands til lengri tíma verði sem best borgið, og þá eiga allir að standa í lappirnar hvað það varðar.

Ég vonast til þess að þingmennirnir okkar í fjárlaganefndinni finni að þeir fái allt það svigrúm sem þeir þurfa til þess að fara vel yfir málið því að málið, eins og það liggur fyrir þinginu í dag, þetta frumvarp, er ótækt. Það er ótækt fyrir þjóðina, það er ótækt fyrir þingið og það er ótækt fyrir komandi kynslóðir.