138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í dag er 23. október, dagurinn sem himnarnir áttu að hrynja yfir Íslendinga að mati ríkisstjórnarinnar og Breta og Hollendinga. Þetta var lokadagurinn í nauðungarsamningunum sem hér átti allt að fara á hvolf ef ekki væri búið að semja. Þeir ætluðu að gjaldfella Icesave-samningana í dag. Og hvað hefur komið í ljós? Málið er hér í góðum farvegi virðist vera, 1. umr. er að ljúka og ekki er enn búið að gjaldfella Icesave-samningana. Við Íslendingar verðum að átta okkur á því að við erum nýjasta auðlind Breta og Hollendinga, því frá og með þessum samningi hafa þeir af okkur 100 milljónir á dag um ókomin ár. Nýjasta útspil stjórnarliða er að spyrja stjórnarandstöðuna hvað það kostar að gera ekki neitt.

Mig langar að varpa þessari spurningu til fjármálaráðherra, því hann fer með framkvæmdarvaldið hér á landi: Hvað kostar það hefðum við ekki gert neitt í Icesave-samningunum og eru einhver plön um að reikna það út fyrir okkur?