138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú þannig samkvæmt stjórnskipan landsins að lög frá Alþingi ganga til framkvæmdarvaldsins sem sér um framkvæmd þeirra. Þetta veit ég að hv. þingmaður þekkir mætavel. Það er fylgt hér algerlega hefðbundinni stjórnskipun og það er reyndar þannig að ef hv. þingmaður vill lesa sig betur til um þetta, þá bendi ég henni á ræðu sem hv. þm. Bjarni Benediktsson flutti hér 5. desember sl., þar sem hann fór einmitt yfir þessa verkaskiptingu, að málið færi nú að aflokinni samþykkt þeirrar þingsályktunartillögu sem þá var samþykkt í hendur framkvæmdarvaldsins, sem færi með samninga við önnur ríki og tæki þar með við málinu. Með nákvæmlega sama hætti gerðist það í sumar að það fór í hendur framkvæmdarvaldsins að annast kynningu á niðurstöðu Alþingis. Það var gert, algerlega í samræmi við anda laganna, öll gögn málsins þýdd og þau kynnt gagnaðilum okkar. Síðan hefur verið unnið úr því með hefðbundnum hætti milli stjórnvalda ríkjanna, af æðstu embættismönnum sem að þessu máli hafa komið frá báðum hliðum, með aðstoð þeirra lögfræðinga sem ég nefndi hér til sögunnar og með því að upplýsa jafnóðum og eitthvað nýtt kom fram í málinu, þingnefndir um það, (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna. Þetta hefur verið gert allt saman á fullkomlega (Forseti hringir.) hefðbundinn og eðlilegan hátt.