138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu reynum við að tryggja stöðu okkar eins og við getum með öllum tiltækum ráðstöfunum á hverjum tíma. Það mun aldrei breyta hinu, að við róum ekki fyrir hverja vík í þeim efnum. Það er engin allsherjarlíftrygging og lífsgæðatrygging til fyrir þjóðir í hverfulum heimi, langt inn í framtíðina, ég þekki ekkert tryggingafélag sem tryggir þjóðum hagvöxt og velsæld áratugi inn í framtíðina. Það er þrotlaust og viðvarandi verkefni að reyna að vinna að því að svo verði. Það er hið dagsdaglega og sígilda viðfangsefni stjórnmálanna.

Varðandi gögn þá verð ég bara hreinskilnislega að játa að ég veit ekki hvort til eru fundargerðir beinlínis eða minnisblöð af öllum fundum, stórum og smáum, sem menn hafa átt um þessi mál. Það er ekki alltaf þannig að fundir séu svo formlegir að þar séu færðar fundargerðir. Oftast taka embættismenn niður einhverjar minnisnótur sem liggja eftir slíka fundi. Það er ekki þannig að símtöl séu alltaf tekin upp þegar ráðherrar eiga kannski stutt símtöl með stuttum fyrirvara. Og ég veit ekki, ef tortryggnin (Forseti hringir.) er slík þá held ég sé ekki hægt að leysa þetta mál öðruvísi en að Sjálfstæðisflokkurinn fái bara alltaf að hafa vitni ef þetta snýst um eitthvert svoleiðis hugarfar. (Forseti hringir.)