138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hófstillta og málefnalega ræðu en tel að hún hafi ekki upplýst margt um efnisinnihaldið, enda kannski ekki von á því í stuttu yfirliti. Engu að síður fannst mér jákvætt að hæstv. fjármálaráðherra nálgaðist málið með þeim hætti að við ættum að horfa til framtíðar en eins og hv. þingmenn vita var ræða hæstv. fjármálaráðherra í gær fremur lituð af því að hann liti reiður um öxl en bjartsýnn fram á við. Nóg um það.

Ein spurning brennur á mörgum um þessar mundir og það er afstaða þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, flokks hæstv. fjármálaráðherra. Nú hefur fjármálaráðherra lýst sinni skoðun og formaður þingflokksins, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, lýst sinni skoðun, en getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst okkur um afstöðu annarra þingmanna (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ekki hafa talað í þessari umræðu?