138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég virði að sjálfsögðu rétt þingmanna til þess að þegja um afstöðu sína þangað til kemur að endanlegri atkvæðagreiðslu. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra bara í fullkominni vinsemd hvort hann gæti upplýst okkur um afstöðu þingmanna Vinstri grænna. Við vitum að þegar málið fór í gegnum þingið á sumarþingi breytti afstaða nokkurra þingmanna Vinstri grænna töluvert miklu um framgang málsins. Þess vegna er ekki óeðlilegt að eftir því sé leitað nú við 1. umr. um málið að afstaða þingmanna þessa allstóra þingflokks liggi fyrir. Eins og ég vakti athygli á hefur enginn þingmaður flokksins tjáð sig í þessari umræðu að undanskildum þingflokksformanninum og auðvitað hæstv. fjármálaráðherra sjálfum. Þess vegna stendur sú spurning eftir hver afstaða þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er til málsins, þótt ég virði að sjálfsögðu rétt fjármálaráðherra til þess að svara ekki spurningunni.