138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Lagasetningin er óvenjuleg að því leyti að hún myndar heildstæðan ramma utan um mismunandi úrræði en nefndin telur fulla þörf á því þar sem skuldavandinn sem blasir við nú er víðtækur og aðkallandi.

Endurskipulagning skulda einstaklinga, heimila og fyrirtækja er eitt mikilvægasta verkefnið sem við blasir í íslensku samfélagi. Greiðslu- og skuldavandi heimila er margþættur og flókinn og krefst blandaðra aðgerða. Þar þarf margt að vinna saman að því að forða fólki úr greiðsluerfiðleikum, tryggja húsnæðisöryggi, minnka skaðann af tekjufalli, t.d. vegna atvinnumissis, og koma hreyfingu á húsnæðismarkað. Nefndin hefur haft mjög skamman tíma til að vinna breytingar á frumvarpinu en það var samdóma álit nefndarinnar að verkefnið væri það brýnt að allt væri til vinnandi að afgreiða það þannig að ákvæði þess, sérstaklega um greiðslujöfnun, gætu tekið gildi vegna húsnæðislána á gjalddaga 1. nóvember nk.

Frú forseti. Ég vil þakka stjórnarandstöðunni fyrir sérlega gott samstarf. Í nefndinni var einhugur um að vinna frumvarpið sem best og leita sem bestra lausna svo það gæti orðið að lögum sem fyrst. Nefndin lagðist því öll á árarnar og við unnum sameiginlega að því að tryggja að hægt væri að greiða úr vanda heimila og fyrirtækja í landinu. Félags- og tryggingamálanefnd ástundaði samstarf sem ætti að verða þingheimi til fyrirmyndar í þeim erfiðu verkefnum sem fram undan eru. Þegar best lét kváðu við hlátrasköll og kviðlingar flugu, þrátt fyrir alvarleika verkefnisins.

Ég vil jafnframt þakka nefndarriturum fyrir það mikla starf sem þær lögðu á sig. Þær höfðu gríðarlega stuttan tíma til þess að vinna ítarlegt og öflugt nefndarálit, auk þess sem gerðar voru ýmsar breytingar sem kröfðust mikillar yfirlegu. Á nefndasviði var unnið fram eftir nóttu og ég veit að einhverjir fóru ekki í háttinn aðfaranótt þessa dags þegar við stöndum hér með þetta nefndarálit. Ég vil því þakka nefndasviði sérstaklega fyrir í þessari ræðu.

Aftur að nefndarálitinu. Nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund og nokkrir aðilar skiluðu að auki inn umsögn. Markmið frumvarpsins er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindingar einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar. Til að ná þessu fram eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar sem lúta að almennum aðgerðum fyrir einstaklinga, í öðru lagi breytingar sem skapa eiga lagaramma um sértækar aðgerðir og í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Lögunum til fyllingar hefur verið unnið að gerð samkomulags við aðila sem veita íbúðalán um greiðslujöfnun gengistryggðra lána og aðila sem veita bílalán um greiðslujöfnun slíkra lána, hvort sem þau eru gengistryggð eða verðtryggð.

Þótt nefndin styðji þær réttarbætur sem í frumvarpinu eru boðaðar áréttar hún jafnframt að áfram þurfi að huga að ýmsum atriðum frumvarpsins og að rík þörf sé á að meta árangurinn eftir því sem fram vindur. Nefndin leggur því til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt því skulu ráðherrar þegar við gildistöku laganna skipa starfshóp sem meti árangur af setningu laganna og álitaefni sem upp koma við framkvæmdina til að tryggja að úrræði samkvæmt lögunum séu virk.

Við gerum einnig breytingartillögu við 2. gr. um sértæka skuldaaðlögun einstaklinga og heimila, þar sem við setjum skýrari viðmið vegna verklagsreglna við skuldaaðlögunina og gerum viðmið sem eru sambærileg við þau sem þegar voru í frumvarpinu við 3. gr. vegna skuldaaðlögunar fyrirtækja.

Þá fjallaði nefndin mjög ítarlega um eftirlit með framkvæmd 2. og 3. gr. frumvarpsins. Nauðsynlegu eftirliti með ákvæðunum er hægt að skipta í þrjá þætti, í fyrsta lagi að reglur þær sem fjármálafyrirtæki setja sér séu í samræmi við gildandi reglur og verklag við mat á varúðarfærslum til afskriftar útlána. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja að verklag við frjálsa samninga samkvæmt 2. og 3. gr. veiki ekki fjárhagsstöðu fjármálafyrirtækja. Eftirlitið á ekki við um aðra kröfuhafa, enda er þar ekki nauðsyn á opinberu eftirliti. Samningar aðila eru alfarið á ábyrgð þeirra sjálfra, þ.e. þeirra sem ekki eru fjármálastofnanir.

Í öðru lagi þarf að tryggja gagnsæi og sanngjarna meðferð skuldara við úrlausn mála samkvæmt 2. og 3. gr. Í athugasemdum við frumvarpið var gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hefði það hlutverk. Álitamál er hvort nægilega vel sé um þetta eftirlit búið og hvort það samræmist lögbundnu hlutverki Fjármálaeftirlitsins.

Í þriðja lagi er síðan skattaþátturinn, þ.e. að tryggja að eftirgefnar skuldir séu í raun tapaðar kröfur. Reglur sem kröfuhafar skulu setja sér samkvæmt 2. og 3. gr. eru mikilvægar í þessu skyni. Ljóst er að þetta eftirlit hlýtur að vera á verksviði skattyfirvalda sem hafa til þess lögfestar heimildir.

Nefndin taldi ekki þörf á að gera athugasemdir við fyrsta og síðasta þátt eftirlitsins en tók annan þáttinn til sérstakrar skoðunar því við töldum hann ófullnægjandi. Mikilvægt er að tryggja gagnsæi og sanngjarna meðferð skuldara við úrlausn mála þeirra, að jafnræðis- og sanngirnissjónarmið ráði við beitingu sértækrar skuldaaðlögunar og framkvæmdin sé samræmd. Þar sem um er að ræða bankaupplýsingar einstaklinga og lögaðila er þó ekki hægt að setja reglur um algjört gagnsæi hvað beitinguna varðar og því nauðsynlegt að ríkt og skipulegt eftirlit sé haft með framkvæmd eftirlitsskyldra aðila á ákvæðum 2. og 3. gr.

Nefndin hefur kynnt sér ýmis sjónarmið hvað þetta varðar og ýmsum hugmyndum hefur verið velt upp um hver skuli fara með þetta eftirlitshlutverk. Nefndin ákvað að setja inn ákvæði í frumvarpið, sem verða þá ný 4. og 5. gr., um eftirlit með sértækum aðgerðum. Eftirlitsnefnd verður sett á laggirnar, skipuð af efnahags- og viðskiptaráðherra. Hún verður fagleg og fer með eftirlit með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar, sbr. I. kafla. Í nefndina skal skipa þrjá menn, hagfræðing, endurskoðanda og einstakling sem uppfyllir skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og skal hann vera formaður nefndarinnar. Eftirlitshlutverk nefndarinnar nær eingöngu til eftirlitsskyldra aðila á fjármálamarkaði, sbr. lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Um hlutverk eftirlitsnefndarinnar segir m.a. í greininni að hún skuli fylgjast með og kanna að eigin frumkvæði hvort eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði framfylgi samræmdum reglum sem kunna að verða settar á grundvelli 2. gr. og reglum samkvæmt 2. mgr. 3. gr. Nefndin skal enn fremur fylgjast með því að við framkvæmd sértækra aðgerða sé gætt sanngirni og jafnræðis milli skuldara.

Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál. Í kaflanum eru ákvæði sem ætlað er að rýmka heimildir til eftirgjafar skulda einstaklinga við Íbúðalánasjóð svo þær nái til eftirgjafar á grundvelli samræmdra aðgerða kröfuhafa. Þá er þar ákvæði sem fjölgar úrræðum sjóðsins vegna greiðsluvanda. Lögð er til heimild til að fresta greiðslum lántakenda sem einnig ná til lána vegna leiguíbúða, auk þess sem lagt er til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að greiðslujafna lán sem veitt hafa verið til sveitarfélaga, félaga eða félagasamtaka til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, með því skilyrði að greiðslujöfnun hafi bein áhrif á leigufjárhæð og búseturéttargreiðslur.

Auk þeirra ákvæða sem gerð hefur verið grein fyrir er í III. kafla frumvarpsins ákvæði 6. gr., sem ætlað er að setja grundvöll fyrir stofnun opinbers hlutafélags sem sjái um fjármögnun og endurfjármögnun íbúðalána fyrir fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð. Nefndin vill ekki draga úr mikilvægi þess að skoðaðar verði leiðir og lausnir við fjármögnun af þessu tagi en telur ákvæðið þó nokkuð óskýrt og skýringum í athugasemdum ábótavant. Þá telur nefndin að huga þurfi betur að stefnumörkun hvað þetta atriði varðar og leggur til ákvæði til bráðabirgða um að ráðherra verði falið að meta hvaða leiðir eru færar og ákjósanlegar til að mæta skorti á langtímafjármögnun á íbúðalánamarkaði og tryggja fjármögnun og endurfjármögnun íbúðalána fyrir fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð. Jafnframt falli þá 6. gr. brott úr frumvarpinu.

Nefndin ræddi einnig álitaefni um hvort eftirgjöf skulda í sértækri skuldaaðlögun gæti orðið til þess að það yrði skattskylda á þá sem fengju eftirgjöf skuldanna. Á eftir því sem nú verður 8. gr. í frumvarpinu kemur nýr kafli, um breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þeirri breytingu er ætlað að tryggja að skuldaeftirgjöf vegna sértækrar skuldaaðlögunar einstaklinga og heimila myndi ekki skattskyldu eða skattstofn.

Hvað varðar eftirgjöf til fyrirtækja er um mun flóknara mál að ræða. Líklegt er að tekjufærsla sem kemur til vegna eftirgjafar skulda komi einungis á móti tapi fyrirtækisins og því verði ekki um eiginlegar skattgreiðslur að ræða. Reglur um skattleysi gætu enn fremur skapað fyrirtæki forskot á samkeppnisaðila með því að gera því kleift að færa tap sitt áfram og nýta það á móti hagnaði síðar meir. Þrátt fyrir að í undantekningartilfellum geti komið til skattgreiðslna leggur nefndin ekki til breytingar hvað þetta varðar og vísar til þess að nokkurt svigrúm er til lagabreytinga, reynist þeirra þörf. Nefndin vísar því til efnahags- og skattanefndar að skoða þennan þátt, enda heyrir það undir málefnasvið nefndarinnar og við vonumst til þess að nefndin taki þetta sem fyrst á dagskrá. Þó er nokkurt svigrúm þar sem álagning fyrirtækja vegna þessarar skuldaaðlögunar mun væntanlega ekki koma til fyrr en eftir allnokkurn tíma.

Auk þeirra breytinga sem gerð hefur verið grein fyrir leggur nefndin til að gildistími I. og II. kafla frumvarpsins verði takmarkaður þannig að ákvæðin gildi einungis til loka árs 2011. Telur nefndin eðlilegt að ákvæðin séu tímabundin enda er um að ræða úrræði sem koma til vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna banka- og gjaldmiðilshrunsins. Þá leggur nefndin til að starfshópur skoði hvort takmarka eigi gildissvið annarra kafla með sama hætti.

Nefndin leggur jafnframt til ýmsar smávægilegar breytingar til lagfæringar á texta sem ég hyggst ekki fara yfir hér, frú forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit þetta skrifa Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Unnur Brá Konráðsdóttir, með fyrirvara, Guðbjartur Hannesson, Magnús Orri Schram, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Davíð Stefánsson, með fyrirvara.