138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þessa fyrirspurn. Það er ljóst að í þessari umræðu um skuldaaðlögun og skuldaafskriftir eru miklar tilfinningar og mikið af réttlætisrökum. Bæði hafa ýmsir óttast að ekki sé gert nóg fyrir þá sem eru í vanda og eins er eðlilegt að tortryggni ríki í garð þess að þeir sem hafi farið mjög offari fái óeðlilega fyrirgreiðslu.

Þessi sértæka skuldaaðlögun verður unnin á grundvelli samkomulags milli fjármálastofnananna sem Fjármálaeftirlitið mun samþykkja. Þar er miðað við hóflega eign og einn bíl þannig að enginn mun halda eignum umfram það sem nauðsynlegt telst til þess að halda hóflegu húsnæði. Ég held að það verði að líta svo á að þó að fólk kunni að hafa sýnt óráðsíu, ef við viljum kalla það svo, á það fólk líka rétt á að eiga heimili og sæmilegt líf með börnunum sínum.

Þær áhyggjur sem hv. þingmaður viðrar eiga rétt á sér en ég held þó að ákvæði í frumvarpinu séu þess eðlis að verið sé að tryggja réttlæti hvað varðar að viðkomandi, hafi hann farið óvarlega, mun þurfa að gefa eftir allar þær eignir sem hann kann að eiga nema þær sem eru nauðsynlegar til þess að halda sæmilegt heimili.