138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti kost á því að eiga gott og langt samtals við bankamann í gær. Sá bankamaður lýsti yfir miklum áhyggjum af þessu frumvarpi vegna þess hvernig það væri sett upp, því eins og vitað er þá er alltaf bestu tillögurnar sem koma frá fólkinu sem vinnur í þeim geira sem viðkomandi lagafrumvarp er um. Ég er ekki að gagnrýna þetta persónulega, ég vinn ekki í banka, en gagnrýni kom t.d. fram um að þetta ættu að vera jafnar aðgerðir yfir alla á þann hátt að allir ættu að fara þarna inn á þeim forsendum að þetta væri fyrst og fremst spurning um pólitík. Þessi bankamaður sagði við mig hreint út: Þetta er spurning um pólitík, þetta er spurningin um stefnu ríkisstjórnarinnar á þann hátt að ríkisstjórnin geti sagt að hér hafi verið farið í almennar aðgerðir. Þessum viðkomandi bankamanni hugnast mun betur sú aðferð sem framsóknarmenn leggja til, að það sé afskrifað strax, skuldir leiðréttar í eitt skipti og í byrjun, (Gripið fram í.) líka til þess að hægt sé að koma fasteignamarkaðnum af stað. Þetta frumvarp frystir fasteignamarkaðinn alveg. Fólk situr fast í sínu húsnæði, verði það að lögum, því það getur ekki stækkað við sig eða minnkað við sig. Þannig að því sé nú haldið hér til haga.

Svo ég svari nú spurningunni um það hvaða hópur það er og hvernig það er skilgreint hið svokallaða „óreiðufólk“, þá vil ég vísa þeirri spurningu aftur heim til hv. þingmanns og ekki síst Samfylkingarinnar, því það var Samfylkingin sem hafði hæst um það kosningabaráttunni þegar var verið að rífa niður 20%-leið Framsóknarflokksins að við værum að hjálpa „óreiðufólki“, það voru mörg nöfn yfir þetta, „fólk sem sukkaði mest“, „óreiðufólk“, „vanskilafólk“, en við vildum hafa þetta yfir allt til að gæta jafnræðis og sóttum þessa tillögu í jafnræðisreglu (Forseti hringir.) stjórnarskrárinnar.