138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Andsvarið kemur kannski í stað ræðu og sparar tíma. Ég vil nota þetta tækifæri og lýsa mig sammála þeim meginatriðum sem fram hafa komið í máli allra þeirra nefndarmanna sem hafa tjáð sig um málið hér í dag. Við erum, held ég, flest sammála um álitaefnin í frumvarpinu. Mjög skammur tími var til verka sem er auðvitað alltaf erfitt þegar þarf að vanda til þeirra. Það voru þarna álitamál um samkeppnismálin, um samstarf við fjármálastofnanir, eftirlitsþáttinn og stöðu skuldarans og hvernig fara beri með málefni skuldaranna. Í því samhengi kom upp þessi umræða um umboðsmann skuldara.

Mér er töluvert létt við þá úrlausn málsins að skipaður skuli þessi starfshópur sem fylgir löggjöfinni eftir og gerir þá tillögur til úrbóta ef í ljós kemur að þess gerist þörf. Við erum þá farin að tala um það sem nefndarformaður okkar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur kallað lifandi löggjöf og sem er kannski bara málsmeðferð til fyrirmyndar.

Svo langar mig rétt aðeins að nota tækifærið og þakka fyrir það góða samstarf sem tókst í nefndinni, milli stjórnarandstöðu og meiri hluta nefndarinnar. Það vakti líka sérstaklega athygli mína í þessu mikla starfi með knappan tíma hversu frábært starf var unnið af hálfu starfsfólks nefndarinnar. Það er mikill auður fyrir þennan vinnustað að hafa á að skipa slíku starfsliði.

Svo bara rétt í lokin: Ég vona að þetta hafi slegið tóninn fyrir starf nefndarinnar í framtíðinni og kannski starf milli stjórnar og stjórnarandstöðu (Forseti hringir.) en:

Eftir mikið starf og streð,

stoðir laga rísa,

þungir fylgja þankar með

og þessi litla vísa.