138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:58]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lifandi löggjöf, það er nú eitthvað sem ég hef ekki heyrt áður. Það er verið að skipa hér nefndir og eftirlitshópa með einhverri löggjöf sem á að taka á vandamálum. Það er einfaldlega dæmi um það hvers konar óskapnaður þetta frumvarp er og hvaða flækjustig það mun auka hvað varðar vanda heimilanna og vanda fólks. Ef það er orðrétt eftir mér haft sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan, að ég hefði talað beint með þessum orðum var ekki ætlun mín að ýja að því að samstarf í félags- og tryggingamálanefnd stafaði af því að fólk ætti persónulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ég tel hins vegar einboðið þegar verið er að fjalla um svona mál að einfaldlega sé upplýst um þessa hluti. Hér er, og getur verið, um hagsmunatengsl að ræða sem á að upplýsa um og það er eðlilegt. En það var ekki ætlun mín að ýja að því að starfsemi félags- og tryggingamálanefndar hefði verið af þeim sökum. Ef svo er biðst ég afsökunar á því.

Hvað varðar annað eru miklu meiri og alvarlegri vandamál fólgin í þeim skuldum fólks, hvort sem það eru heimili eða annað, þegar fólk stendur frammi fyrir því að þurfa að pakka saman, taka myndir niður af veggjum, pakka dótinu sínu ofan í töskur og flytja eitthvað annað en af einhverju hlutabréfabraski sem hugsanlega hefur átt sér stað einhvers staðar úti í bæ.

Þess vegna á að skilja milli þessara hluta í svona löggjöf. Þetta eru einfaldlega ekki sams konar skuldir, og heimili fólks eiga það ekki skilið að vera sett í sama pakka, það er einfaldlega svo. (Gripið fram í.)