138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[14:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari einróma niðurstöðu sem hér er komin. Það er mikið ánægjuefni að sjá að fulltrúar allra flokka hafa treyst sér til að vinna saman að þessu máli og treyst sér til að styðja það allt til enda. Það lofar mjög góðu um það samstarf sem fram undan er og ég hlakka til starfs þeirrar þverpólitísku nefndar sem við munum nú setja á fót. Það skiptir miklu að við nálgumst þetta erfiða verkefni á þeim forsendum að við ætlum að vinna saman, við ætlum að leita sameiginlega lausna og við ætlum að fylgja þeim eftir alla leið þegar við höfum náð þeim.