138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

nauðungarsala.

90. mál
[14:50]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild sýslumanns til að verða við ósk gerðarþola um að fresta nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði verði framlengd til 31. janúar 2010.

Með lögum nr. 23/2009 var gerð sú breyting á lögum um nauðungarsölu að gerðarþoli gæti óskað eftir því við sýslumann að frestað yrði nauðungarsölu á fasteign hans fram yfir 31. október 2009 að því tilskildu að um væri að ræða eign þar sem gerðarþoli héldi heimili og hefði skrásett lögheimili enda væri um að ræða húsnæði sem ætlað væri til búsetu samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Var þá jafnframt gert ráð fyrir að ef um væri að ræða kröfur í eigu íslenska ríkisins eða fjármálafyrirtæki í þess eigu aðrar en skattkröfur bæru kröfurnar ekki dráttarvexti á freststímanum. Tilgangurinn með frestinum var að gefa skuldurum kost á að nýta sér þau úrræði sem í boði væru til að koma fjármálum sínum á réttan kjöl, t.d. með samningum við kröfuhafa eða að leita eftir greiðsluaðlögun.

Áðan voru til umræðu aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þar var kveðið á um möguleika fyrir lánastofnanir að lækka höfuðstól krafna og heimild þeirra til að taka á vanda skuldara með skipulegum hætti. Í þessu samhengi þykir rétt að framlengja frest nauðungarsölu svo að þeim skuldurum sem nýtt gætu sér þau úrræði sé veittur til þess kostur. Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir er því ráðgert að skuldari geti sett fram ósk um að frestað sé ákvörðun um lokasölu á fasteign hans sem uppfylli þau skilyrði að hann haldi þar heimili, hann hafi þar skráð lögheimili sitt og um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Frestunin gerist ekki sjálfkrafa heldur verður gerðarþoli að óska eftir henni, einnig þó svo að eignin hafi áður verið í nauðungarsölufresti. Einungis er um að ræða frestun á lokasölu þannig að mál sem styttra eru komin halda áfram leið sinni í gegnum kerfið þar til kemur að því að taka ákvörðun um lokasölu. Þá munu kröfur ríkisins bera dráttarvexti. Þannig er ekki gert ráð fyrir að framlengt verði eldra ákvæði um að kröfur ríkisins beri ekki dráttarvexti.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir að þeir sem geti nýtt sér þann tíma sem nú gefst til að koma fjármálum sínum í betri farveg geri það en ekki er gert ráð fyrir að frestur til nauðungarsölu verði framlengdur oftar en í þetta sinn.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr. Vonast ég eftir því að málið hljóti skjóta afgreiðslu því að ég vil benda á í þessu samhengi að frá því að sýslumaður tekur ákvörðun um lokasölu líða fjórar vikur að sjálfri lokasölunni. Það gefst því ráðrúm, verði frumvarpið að lögum fyrri partinn í nóvember, þ.e. þá ættu lögin að geta náð til lokasölu, þannig að það verði engin lokasala ákveðin eftir 31. janúar og í raun fari þá ekki lokasala fram fyrr en í febrúar eða byrjun mars.