138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

79. mál
[15:16]
Horfa

Flm. (Guðrún Erlingsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hér er ekki hægt að veita nein andsvör vegna þess að hér eru allir sammála um það sem fram fer og er það bara ánægjulegt og gleðilegt. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur fyrir hlý orð og einnig hv. þm. Þuríði Backman. Eins og fram hefur komið virðist þessi tillaga njóta stuðnings alla vega þeirra þingmanna sem eru í salnum. Þetta er síðasti dagur minn á þingi í bili alla vega þannig að ég verð að treysta því að þessu máli verði vel tekið í nefnd og síðan þegar það kemur í þingsal og til atkvæðagreiðslu.

Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Þuríður Backman talaði um, að tryggja nærþjónustuna og fara að hugsa hlutina á nýjan hátt. Megintilgangurinn með tillögu minni var auðvitað að tryggja öryggi Eyjabúa, að auka þjónustuna og koma inn nýrri hugsun, og ég tel að verði þessi tillaga samþykkt verði það fordæmi og því haldið áfram.