138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskipulagning skulda.

[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé ekki að fara fram á pólitísk afskipti eða pólitíska íhlutun í einstök mál af þessu tagi. (Gripið fram í.) Á þingi í vetur var réttilega rætt um hvernig menn tryggðu að einmitt um slíkt yrði ekki að ræða. Ekki síst þess vegna er Bankasýslan til komin, að búa til armslengd frá hinu pólitíska valdi og setja þessi mál í faglegan umbúnað og faglegan farveg þar sem unnið er faglega og samræmt að þessum hlutum.

Ég hygg að hv. þingmaður þurfi ekki annað en skreppa í smástund á netið, þá fái hann talsvert af þeim upplýsingum sem hann biður um. Ég veit ekki betur en að allir bankarnir, a.m.k. sumir þeirra, veit ég fyrir víst vegna þess að ég hef skoðað það sjálfur, hafi sett nákvæmlega sínar verklagsreglur um þessa skuldaúrvinnslu á heimasíðu undir liðnum Umboðsmaður viðskiptavina. Svo er annarra að fara yfir það og fylgjast með því að reglunum sé framfylgt, eins og ég fór yfir áðan. Verði misbrestur á því þarf að sjálfsögðu að taka það föstum tökum.