138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

skuldavandi heimilanna.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það gladdi marga þegar margra mánaða afneitun hæstv. félagsmálaráðherra lauk um mikilvægi þess og nauðsyn að ráðast í almennar aðgerðir til að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Fyrir vikið vildu menn að sjálfsögðu sýna jákvæðni gagnvart þessari viðleitni og vísa ég þar til frumvarps hæstv. ráðherra sem var keyrt í gengum þingið með afar skömmum fyrirvara. En smátt og smátt hefur verið að koma í ljós að á því eru ýmsir ágallar og jafnvel hugsanlegt að frumvarpið geri töluvert meiri skaða en gagn. Spurningin er því sú: Getur hæstv. félagsmálaráðherra tekið undir að mikilvægt sé að ráðast í raunverulega höfuðstólslækkun, þ.e. raunverulega leiðréttingu á lánum íslenskra heimila? Eins og fyrirkomulagið er nú eru á því ýmsir gallar. Það eykur enn á vandann í framtíðinni og dregur þannig úr líkum á því að vandinn leysist nú. Þetta eykur á misskiptingu þegar laun hækka mishratt og þetta frystir nánast algerlega fasteignamarkaðinn og festir fólk þannig í skuldafangelsi.

Spurningin er því þessi, sérstaklega í samanburði við þær fregnir sem nú berast úr bönkunum af gríðarlegum afskriftum sem stefnir í hjá fyrirtækjum og þá kannski sérstaklega einu fyrirtæki: Er ekki ljóst að íslensk fyrirtæki verða að fá að njóta a.m.k. sambærilegrar meðhöndlunar og fá þá raunverulega leiðréttingu lána sinna?

Annar samanburður sem hlýtur að vekja athygli hvað þetta varðar eru fyrirhugaðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Gera þær ekki miklu meira en að éta upp þann skammgóða vermi sem felst í lagabreytingu hæstv. félagsmálaráðherra?